Fréttasafn



5. apr. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Framlög til samgöngumála langt undir þörf

Samkvæmt nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verða framlög til samgöngumála viðlíka hlutfall af landsframleiðslu á tíma áætlunarinnar þ.e. næstu fimm árin og þau hafa verið síðustu fimm ár og langt undir þörf. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í nýrri grein sinni að í áætluninni sé ekki að finna vott af því „stórátaki í samgöngumálum“ sem kynnt hefur verið. Hann segir að auka þurfi fjárútlát til málaflokksins varanlega og stórátak þurfi til að bæta úr þeim bráðavanda sem hafi orðið vegna fjársveltis undanfarinna ára. Samkvæmt áætluninni verða framlög til viðhalds og nýframkvæmda í vegamálum að meðaltali 0,7% af landsframleiðslu á tímabilinu og er það langt undir langtímameðaltali hér á landi en þetta hlutfall var svo dæmi sé tekið 1,1% á tíu ára tímabilinu frá 2001-2010.  

Ingólfur segir að m.a. vegna vaxtar í tekjum af erlendum ferðamönnum undanfarin ár megi fullyrða að við höfum aldrei áður byggt okkar velmegun jafn mikið og á undanförnum árum á vegakerfi landsins. Á sama tíma sé ríkisstjórnin að leggja minna til þessara mála en nokkru sinni og að engar breytingar í því finnist í fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Hann segir það bera merki um ranga forgangsröðunin í ríkisrekstrinum. 

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni en yfirskrift greinarinnar er „Stórátak“ ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum orðin tóm.