Fréttasafn



3. nóv. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Samtök rafverktaka

Framtíð stafrænna innviða til umræðu á haustráðstefnu Rafal

Framtíð stafrænna innviða var til umfjöllunar á haustráðstefnu Rafal sem er aðildarfyrirtæki Samtaka rafverktaka og Samtaka iðnaðarins. Ráðstefnan sem fór fram 22. október í húsakynnum fyrirtækisins að Hringhellu 9a var ætluð fagfólki í iðnaði og var boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir, stjórnarformaður Rafal, opnaði ráðstefnuna og Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flutti ávarp. 

Að framsögum loknum var efnt til umræðna um þróun snjallra innviða og hvernig stafræn tækni getur eflt orkugeirann. Umræðurnar leiddi Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, og voru viðmælendur hans Niemi Tiia, þjónustustjóri hjá Pori Energia í Finnlandi, Valentin Keller, tæknilausnasérfræðingur hjá Akenza í Sviss, Nína Lea Z. Jónsdóttir, sérfræðingur í stafrænum kerfum hjá Landsneti, og Sunna Björg Helgadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá HS Orku. Viðmælendur deildu innsýn í þau tækifæri og áskoranir sem felast í snjöllum lausnum, gagnadrifinni stjórnun og sjálfvirknivæðingu innviða, sem og hvernig alþjóðleg þróun hefur áhrif á íslenskan orku- og rafiðnað.

Mikilvægt að efla samvinnu og þekkingu

Á vef Samtaka rafverktaka, Sart, kemur fram að samtökin fagni framtaki Rafal því slíkir viðburðir gegni lykilhlutverki í að miðla þekkingu, tengja saman aðila úr ólíkum greinum og styðja við nýsköpun og tækniframfarir í þágu íslensks iðnaðar. Rafal hefur um árabil verið leiðandi í þróun og uppbyggingu raforkuinnviða á Íslandi. Fyrirtækið hefur yfir 40 ára reynslu í faginu og sérhæfir sig í hátæknilausnum fyrir orkuiðnaðinn, sveitarfélög og stóriðju. Með öflugri tæknideild og eigin framleiðslu tryggir Rafal lausnir sem mæta ströngustu kröfum um öryggi, gæði og sjálfbærni. Hjá Rafal er unnið markvisst að því að þróa snjalla, örugga og hagkvæma innviði sem styðja við sjálfbæra framtíð. Með aðild að SI og SART er Rafal hluti af víðtæku neti fyrirtækja sem vinna að því að efla íslenskan iðnað, bæta rekstrarskilyrði og stuðla að tækniframförum í samfélaginu.

Á vef Sart er hægt að nálgast fleiri myndir frá ráðstefnunni.

_46A6764_2

_46A7573_2

_46A6532_2

_46A6569_2

_46A6963_2

_46A7153_2

_46A7298_2

_46A7342_2

_G8A3363_2

_G8A3376_2