Framundan er minna framboð íbúðarhúsnæðis
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, flutti erindi á fundi HMS og SI um stöðu íbúðauppbyggingar og framtíðarhorfur sem fór fram fyrr í dag. Í erindi sínu sagði Sigurður meðal annars frá því að það væru vísbendingar um samdrátt í verkefnum meðal arkitekta og verkfræðinga sem þýddi að á næstu árum væri um að ræða minna framboð íbúðarhúsnæðis. Í könnun sem gerð var meðal arkitekta- og verkfræðistofa innan SI núna í september kemur fram að yfir 60% þeirra segja að verkefnum hafi fækkað og ekki nema 9% sem segja að verkefnum hafi fjölgað.
Sigurður nefndi að skortur á íbúðum leiði til óstöðugleika þar sem hærra húsnæðisverð auki verðbólgu og leiði til hærra vaxtastigs. Einnig sagði Sigurður að það væru neikvæðir hvatar á byggingamarkaði sem fælust í háum vöxtum og miklum kostnaðarverðshækkunum, hækkun virðisaukaskatts á vinnu manna á verkstað, óstöðugu starfsumhverfi og óljósum gjaldtökuheimildum sveitarfélaga.
Þá sagði Sigurður að það væri búið að liggja lengi fyrir að of fáar íbúðir væru byggðar hér á landi. Hann sagði að margt gott hefði verið gert á síðustu árum og að stjórnvöld hefðu unnið ötullega að umbótum en ráðast þyrfti að rót vandans. Hann sagði að skapa þyrfti skilyrði til uppbyggingar sem meðal annars gæti falist í að endurskoða svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, heimila ríkisvaldinu inngrip í skipulagsmálum, setja hvata fyrir sveitarfélög til uppbyggingar, halda áfram að einfalda regluverk og stjórnsýslu og bæta starfsskilyrði byggingariðnaðar.
Einnig kom fram í máli Sigurðar að niðurstöður kannana sem HMS framkvæmir sýni að landsmenn vilji búa í eigin húsnæði. Af þeim sem eru á leigumarkaði væru einungis 8% sem vilja vera á leigumarkaði en hins vegar væri áhersla stjórnvalda á að fjölga leiguíbúðum. Þær áherslur stjórnvalda magni vandann. Hann sagði að opinber húsnæðisstuðningur hafi færst frá stuðningi við íbúðareigendur yfir til leigjenda. Þannig myndi stjórnvöld hvata fyrir fólk að leigja frekar en að eiga húsnæði.
Jafnframt sagði Sigurður að lóðaskortur hafi heft íbúðauppbyggingu og að vaxtamörk svæðisskipulags höfuðborgarsvæðsins taki ekki mið af fjölgun landsmanna. En þar sem íbúum hafi fjölgað mun hraðar séu forsendur brostnar og endurskoða þurfi svæðisskipulag.
Hér er hægt að nálgast glærur Sigurðar frá fundinum.
Hér er hægt að nálgast niðurstöður íbúðatalningar HMS.
Á vef HMS er hægt að nálgast upptöku af fundinum.
Viðskiptablaðið, 24. september 2024.
Innherji, 24. september 2024.
Viðskiptablaðið, 24. september 2024.