Fréttasafn



19. okt. 2023 Almennar fréttir Félag ráðgjafarverkfræðinga Mannvirki

FRV framselur kjarasamningaumboð sitt til SA

Félag ráðgjafarverkfræðinga, FRV, hélt framhaldsaðalfund sinn þriðjudaginn 17. október í Húsi atvinnulífsins. Á dagskrá fundarins voru umræður og ákvarðanataka um mögulegt framsal kjarasamningsumboðs félagsins til Samtaka atvinnulífsins, SA, en hingað til hefur FRV haldið sjálft utan um kjarasamningaviðræður og -gerð við Verkfræðingafélag Íslands og tengd stéttarfélög. Bjartmar Steinn Guðjónsson  stýrði fundi og ritaði Kristján Daníel Sigurbergsson fundargerð, báðir viðskiptastjórar á mannvirkjasviði SI.

Undanfari fundarins og ákvarðanatökunnar á honum var þó nokkur en á aðalfundi félagsins í byrjun maí á þessu ári var efnt til samtals félagsmanna FRV við Ragnar Árnason, forstöðumann vinnumarkaðssviðs SA, um kosti og galla framsals kjarasamningsumboðs FRV til SA. Þá kynnti Guðjón Jónsson, þáverandi stjórnarmaður FRV, afstöðu stjórnar til mögulegs framsals og sköpuðust góðar umræður allra fundarmanna um fýsileika framsalsins. Ákvörðun aðalfundar var að fresta skyldi ákvarðatöku um framsal kjarasamningsumboðsins til framhaldsaðalfundar félagsins sem haldinn yrði á haustdögum það sama ár.

Á framhaldsaðalfundinum 17. október sl. fór fundarstjóri yfir tillögu stjórnar um framsal kjarasamningsumboðs FRV til SA auk annarra nauðsynlegra og afleiddra tillagna á aðild FRV að SI og SA annars vegar og til lagabreytinga FRV hins vegar yrði almenn tillaga stjórnar um framsal umboðsins samþykkt. Mjög góð fundarsókn var til fundarins og mættu fulltrúar fyrirtækja að baki 89,63% af heildaratkvæðamagni félagsins. Fór svo að fundarmenn samþykktu framsal kjarasamningsumboðs FRV til SA með miklum meirihluta eða 99,84% greiddra atkvæða. Hlutu aðrar afleiddar tillögur stjórnar í tengslum við framsalið einnig yfirgnæfandi meirihluta samþykki fundarmanna eða frá 98,39% og upp í einróma samþykki allra fundarmanna.

Á myndinni eru Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga, og Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, að handsala framsalið að loknum fundi.