Fullnýta þarf tækifærin í vexti tölvuleikjaiðnaðar
Halldór S. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Myrkurs Games og stjórnarmaður í Samtökum leikjaframleiðenda - IGI, segir í viðtali í ViðskiptaMogganum að rekstrarumhverfi tölvuleikjafyrirtækja hafi tekið miklum og jákvæðum breytingum á síðustu misserum en þar skipti mestu auknir skattahvatar vegna fjárfestinga í rannsóknum og þróun. Hann segir það vera mjög mikilvægt að þeir hvatar verði festir í sessi. „Stóra hindrunin núna í vexti tölvuleikjaiðnaðar hér á landi er skortur á ákveðinni sérhæfðri þekkingu sem við þurfum oft og tíðum að sækja utan frá. Það þarf að liðka verulega fyrir komu erlendra sérfræðinga hingað til lands til að við getum fullnýtt tækifærin til framtíðar í vexti tölvuleikjaiðnaðar, en það mun skila sér ríkulega til þjóðarbúsins í formi aukinna gjaldeyristekna.“
Hugverkafyrirtæki geti gert langtímaáætlanir um vöxt á Íslandi
Þegar Halldór er spurður hvaða lögum hann myndi breyta ef hann væri einráður í einn dag? „Ég myndi breyta lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Ég myndi festa í sessi lagabreytingar frá árinu 2020 um hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar þannig að hugverkafyrirtæki geti gert langtímaáætlanir um vöxt á Íslandi. Fyrirtæki sem byggja á nýsköpun, hugverki og tækni geta skapað ríkar gjaldeyristekjur. En ef rekstrarumhverfið hérlendis verður ekki nægilega samkeppnishæft verða þessi fyrirtæki stofnuð og rekin annars staðar.“
ViðskiptaMoggi, 25. ágúst 2021.