Fréttasafn



24. jún. 2022 Almennar fréttir Félag ráðgjafarverkfræðinga Mannvirki

Fulltrúar FRV á RiNord í Stokkhólmi

Fulltrúar Félags ráðgjafarverkfræðinga, FRV, sóttu RiNord, fund samtaka ráðgjafarverkfræðinga á Norðurlöndunum, sem haldin var í Stokkhólmi 16.-17. júní síðastliðinn. Það voru Reynir Sævarsson, formaður FRV, og Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, sem sóttu fundinn.

RiNord er árlegur viðburður þar sem fulltrúar samtaka ráðgjafarverkfræðinga á Norðurlöndunum koma saman og ræða almennt um stöðu greinarinnar og fagleg áherslumál í hverju landi. Undanfarin ár hefur ráðstefnan verið haldin rafrænt sökum samkomu- og ferðatakmarkana og fögnuðu fulltrúar ráðstefnunnar tækifærinu til funda í raunheimi í Stokkhólmi. Á næsta ári verður RiNord ráðstefnan haldin í Noregi.

Fundurinn í Stokkhólmi hófst með yfirferð á landsskýrslu hvers lands fyrir sig þar sem farið var m.a. yfir helstu breytingar á stjórnmála-, laga- og reglugerðarumhverfi, markaðsaðstæður, áhrif Covid faraldursins og helstu áherslumál hverra samtaka fyrir sig á komandi misserum. Eftir yfirferð landsskýrslnanna ræddu fundarmenn um breytt viðskiptaumhverfi og áhrif stríðsins í Úkraínu, stafræna væðingu starfsgreinarinnar og lausnir tengdar henni auk samtakamáttar norrænna samtaka ráðgjafarverkfræðinga í evrópsku og alþjóðlegu umhverfi. 

Fundur-juni-2022_2