Fulltrúar SI og Málms á norrænum fundi iðntæknifyrirtækja
Árlegur fundur iðntæknifyrirtækja á Norðurlöndum, SVAPU, var haldinn dagana 29.- 31. ágúst sl. í Visby á Gotlandi í Svíþjóð. Stjórnendur og formenn samtaka iðntæknifyrirtækja á Norðurlöndunum ásamt hagfræðingum samtakanna sóttu fundinn. Fulltrúar Íslands á fundinum voru Daníel Óðinsson, formaður Málms - samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði, og Guðný Hjaltadóttir, viðskiptastjóri hjá SI. Önnur samtök sem tóku þátt í fundinum voru Dansk Industri, Norsk Industri, Teknikföretagen og Teknologiateloullisuus.
Á fundinum var farið yfir skýrslur Norðurlandanna fimm. Guðný kynnti samtökin, stöðu efnahagsmála, vinnumarkaðsmál, pólitískt landslag og stefnumál iðnaðarins. Mikill samhljómur er á milli landanna en sérstök áhersla er á stöðu iðnaðarins í öryggis- og varnarmálum vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þá fylgjast löndin sérstaklega með því hvernig gervigreind mun koma til með að hafa áhrif á iðnaðinn.
Á fundinum kom meðal annars fram að það er að hægjast á hagvexti í öllum löndum nema Danmörku. Ísland sker sig úr þegar kemur að verðbólgu, vöxtum og húsnæðisskorti. Vinnumarkaðsmál voru mikið til umræðu en meðal þess sem er til umræður hjá löndunum er hækkun ellilífeyrisaldurs og styttri vinnuvika.
Fredrik Haasel, samskiptafulltrúi Saab, var gestur á fundinum og fór hann yfir breytta heimsmynd vegna innrásar Rússa, þau gildi sem nú er tekist á um í heiminum og hvernig iðnaðurinn hefur dregist inn í átökin.
Að lokum var farið yfir niðurstöðu kosninga til Evrópuþingsins sem haldnar voru í júní sl. og rætt um regluvæðingu ESB og samkeppnishæfni evrópsk iðnaðar.
Daníel Óðinsson, formaður Málms, er lengst til hægri á myndinni og Guðný Hjaltadóttir, viðskiptastjóri hjá SI, er fjórða frá vinstri í fremri röð.
Guðný Hjaltadóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI.
Norrænu fulltrúunum var boðið í hjólaferð og hér eru Guðný Hjaltadóttir og Daníel Óðinsson í ferðinni.