Fréttasafn



18. maí 2021 Almennar fréttir Félag ráðgjafarverkfræðinga Mannvirki

Fundur um framtíðarráðgjafann í beinu streymi

Yngri ráðgjafar, deild innan Félags ráðgjafarverkfræðinga, stóðu í morgun fyrir fundi í beinu streymi frá Húsi atvinnulífsins og voru um 60 manns á fundinum. Yfirskrift fundarins var framtíðarráðgjafinn – tækifæri og áskoranir og veltu Yngri ráðgjafar fyrir sér hvernig starf ráðgjafans muni breytast á næstu árum, m.a. í tengslum við starfsumhverfi, lotslagsbreytingar og tækniþróun. 

Fundarstjóri var Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI. Þau sem héldu erindi voru Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannvit og formaður Yngri ráðgjafa, Sigríður Ósk Bjarnadóttir, byggingarverkfræðingur, Ph.D., sérfræðingur í sjálfbærni og loftslagsmálum í mannvirkjahönnun hjá VSÓ ráðgjöf og stjórnarmaður í YR, og Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu, stjórnarmaður í FRV og fyrrverandi stjórnarmaður í YR. 

Þau veltu m.a. upp hvaða áhrif COVID-19 mun hafa á starfsumhverfi ráðgjafans, hvort ráðgjafar þurfi að hanna öðruvísi m.t.t. loftslagsbreytinga og hvort tækniframfarir muni gera það að verkum að verkfræðistofurnar verði óþarfar. Rætt var um þessar spurningar og fleiri í rafrænu pallborði að erindum loknum en þátttakendur í pallborði voru Arnar Kári Hallgrímsson, byggingarverkfræðingur hjá Eflu og fyrrverandi formaður YR, Egill Viðarsson, sviðsstjóri á sviði samgangna og umhverfis hjá Verkís, Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og Jóhannes B. Bjarnason, verkefnastjóri hjá Isavia.

Allir tóku undir að verkfræðistofurnar verði ekki óþarfar en að starf ráðgjafans muni taka talsverðum breytingum á næstu árum. Þörf verður á tæknimenntuðu fólki með aukna sérhæfingu en jafnframt er fyrirséð að aukin eftirsókn verði eftir starfsfólki sem hefur ákveðinn þverfagleika enda aukin samvinna milli stétta, s.s. verkfræðinga og arkitekta, sífellt mikilvægari. Innsæi til að tengja saman tækni, ferla og mannlegt atferli eru eiginleikar sem munu koma framtíðarráðgjöfum vel. Rætt var að mikil tækifæri felist í aukinni hnattvæðingu, t.d. í kjölfar COVID – allir eru vanir fjarfundum og í því felist mikil tækifæri fyrir íslensku verkfræðistofurnar. Við ættum því að fagna aukinni hnattvæðingu fremur en að hræðast hana. Þegar spurt var hver bæri ábyrgð á innleiðingu þeirra þátta sem ræddir voru á fundinum, þ.e. að við tökum inn tækninýjungar og hugum að loftslagsáhrifum í framkvæmdunum sjálfum, hvort það væri verkkaupi eða ráðgjafi var samhljómur um að báðir aðilar bæru ábyrgð á því. Þó kæmist ráðgjafinn ekki langt ef verkkaupinn fylgdi ekki ráðleggingum ráðgjafa og því væri ábyrgðin ef til vill ríkari verkkaupa megin. Þá voru þátttakendur sammála um að reglulegt faglegt samtal fulltrúa verkkaupa og ráðgjafa á markaði væri af hinu góða og til þess fallið að auka gæði verkefna.

Hér er hægt að nálgast glærur fundarins.

Fundur-18-05-2021-1-Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannvit og formaður Yngri ráðgjafa.

Fundur-18-05-2021-2-Sigríður Ósk Bjarnadóttir, byggingarverkfræðingur, Ph.D., sérfræðingur í sjálfbærni og loftslagsmálum í mannvirkjahönnun hjá VSÓ ráðgjöf og stjórnarmaður í YR.

Fundur-18-05-2021-3-Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu, stjórnarmaður í FRV og fyrrverandi stjórnarmaður í YR.

Fundur-18-05-2021-4-Í umræðum tóku þátt Arnar Kári Hallgrímsson, byggingarverkfræðingur hjá Eflu og fyrrverandi formaður YR, Egill Viðarsson, sviðsstjóri á sviði samgangna og umhverfis hjá Verkís, Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og Jóhannes B. Bjarnason, verkefnastjóri hjá Isavia.

Upptaka

Hér er hægt að nálgast upptöku af fundinum:

https://vimeo.com/551885529