Furðulostin yfir ummælum um íslensk gagnaver
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir í frétt Vísis vera furðulostin yfir ummælum Guðmundar Arnars Sigmundssonar, forstöðumanns netöryggissveitar Fjarskiptastofnunar, um að Ísland sé útsett fyrir rafmyntaþvott glæpamanna í miðlum Sýnar. Ummælin séu óábyrgð af hálfu starfsmanns hins opinbera og ekki á rökum reist. Sigríður segir Guðmund Arnar fara með rangt mál þegar hann segir auðvelt aðgengi að tölvugetu í íslenskum gagnaverum gera Ísland fýsilegan kost peningaþvættara. Í frétt Vísis segir að Sigríður hafni þessu. „Íslenskur gagnaversiðnaður er í raun alþjóðlegur. Gagnaverin eru öll með starfsemi í öðrum löndum og það er ekkert öðruvísi farið hér á Íslandi en annars staðar, til dæmis í Svíþjóð, Danmörku eða Finnlandi. Við teljum þetta óábyrg ummæli af hálfu opinbers starfsmanns.“
Fullyrðingar á skjön við sannleikann og byggja á gömlum mýtum
Í frétt Vísis kemur fram að Guðmundur Arnar hafi sagt að íslenska lagaumgjörðin, eftirlitsleysi og ódýr raforka geri Ísland að aðlaðandi kosti fyrir glæpamenn sem vilja þvætta illa fenginn gróða. Sigríður hafnar þessum fullyrðingum algjörlega og að þau fari víðast hvar á skjön við sannleikann, byggi á gömlum mýtum og séu til þess fallin að sverta orðstír mikilvægra fyrirtækja sem skili milljörðum í útflutningstekjur. Öll íslensk gagnaver lúti sama regluverki og í samanburðarlöndum okkar enda séu þau öll með starfsemi erlendis. Strangar kröfur séu gerðar á starfsemina og viðskiptavini sem fari allir í gegnum ítarlegt rýniferli. „Einnig viljum við sérstaklega taka það fram að ummæli Guðmundar Arnars um raforkuverð hér á landi eru ekki sannleikanum samkvæm. Hér er ekki ódýr orka í neinum alþjóðlegum samanburði. Þarna er um að ræða einhverja tíu, tuttugu ára gamla mýtu um að hér sé seld ódýr orka.“ Hún segir að ef allt sé tekið með í reikninginn greiði gagnaver hátt verð fyrir sína raforku sé miðað við aðrar atvinnugreinar, þar að auki geti verðið á raforku verið hærra á Íslandi en í samanburðar- og samkeppnislöndum okkar, þegar öllu er á botninn hvolft. „Gagnaverin þrjú sem starfa bæði á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum þekkja það einna best enda eru þau að kaupa raforku bæði á Íslandi og annars staðar.“
Íslensk gagnaver starfa í samræmi við evrópskt regluverk
Þá segir Sigríður í frétt Vísis að jafnframt sé regluverk um gagnaversiðnaðinn á Íslandi sambærilegt því sem sé í gildi í Noregi og öðrum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins en alltaf megi gott bæta en íslensk gagnaver starfi í samræmi við evrópskt regluverk og séu í eigu evrópskra fjárfesta sem geri ríkar kröfur til sinna fjárfestinga og viðskiptavina.„Um er að ræða gríðarlega flott og mikilvæg fyrirtæki fyrir íslenskt hagkerfi sem skapa tugi milljarða í útflutningstekjur fyrir Ísland, verðmæt þekkingar- og tæknistörf. Við erum í raun bara mjög slegin yfir ummælum forstöðumanns netöryggissveitarinnar um þessa grein í heild sinni.“
Vísir, 28. ágúst 2025.