Fyrirtæki í rafiðnaði þurfa að ráða 800 rafvirkja á næstu 5 árum
Stjórnendur fyrirtækja í rafiðnaði innan Samtaka rafverktaka áætla að ráða þurfi 800 rafvirkja á næstu fimm árum. Stjórnendurnir segja að skortur á starfsfólki hafi heft vöxt fyrirtækja í greininni á síðustu árum. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI.
Samkvæmt könnun sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins segjast 67% stjórnenda fyrirtækja í rafiðnaði að erfiðleikar við að finna rétt starfsfólk hafi heft vöxt fyrirtækisins á síðustu árum. Ekki nema 13% segja að svo hafi ekki verið og 16% segja hvorki né.
Samtök iðnaðarins telja að litið til næstu ára sé ljóst að vandræði blasa við varðandi misræmi milli færniþarfar fyrirtækja og þess hvað innlent menntakerfi nær að anna. Samkvæmt könnuninni segja 35% stjórnenda fyrirtækja í rafiðnaði að innlent menntakerfi muni ekki mæta færniþörf þeirra fyrirtækis litið til næstu fimm ára. 47% segja hins vegar að innlent menntakerfi muni mæta þessari færniþörf og 18% segjast ekki vita það eða vilja ekki svara.
Samkvæmt niðurstöðum könnunar Outcome þurfa fyrirtæki í rafiðnaði að ráða 940 manns á næstu fimm árum. Af þeim þarf greinin 800 rafvirkja eða um 160 á ári. Þetta er nokkuð meira en sá fjöldi rafvirkja sem hefur á síðustu árum lokið sveinsprófi en að jafnaði hafa 142 lokið slíku prófi á ári síðustu fimm árin. Ljóst er að fjölga þarf menntuðum rafvirkjum sem ljúka sveinsprófi á næstu árum ef mæta á færniþörf greinarinnar. Að öðrum kosti er viðbúið að skortur á starfsfólki muni áfram hefta vöxt í rafiðnaði.
Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.