Fréttasafn



23. nóv. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Landssamband bakarameistara Starfsumhverfi

Fyrirtaka bakara í OECD skýrslu tengd gömlu máli

Efnahags- og framfarastofnunin OECD virðist hvorki hafa kynnt sér aðstöðu bakaraiðnarinnar né aðgengi að námi og nemasamningum þegar stofnunin lagði til að löggilding yrði lögð af við starfshóp um bætt eftirlit með lögum um handiðnað. Þetta segir Sigurbjörg Sigþórsdóttir, formaður Landssambands bakarameistara, í frétt Morgunblaðsins en í skýrslunni er lagt til að afnema skuli löggildingu bakara og ljósmyndara. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að á fimmtudaginn síðastliðinn hafi farið fram fundur þar sem fulltrúar OECD kynntu niðurstöður 6. kafla skýrslu um samkeppnismat á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði og hafi Sigurbjörg spurst fyrir á fundinum hvers vegna bakarar séu teknir fyrir í skýrslu um ferðaþjónustu og byggingariðnað. Í fréttinni segir að þá hafi lögfræðingur Samkeppniseftirlitsins, sem veitti OECD ráðgjöf við vinnu við skýrsluna, sagt ástæðuna vera gamalt mál sem tengist rekstri Sætra synda. Sami lögfræðingur viðurkenndi á fundinum að fyrirtaka bakara væri heldur handahófskennd, að sögn Sigurbjargar. Bakarar telja það grafalvarlegt ef leggja eigi niður löggildingu heillar atvinnugreinar vegna gamals máls einnar manneskju sem löngu sé gleymt og grafið. 

Engin samkeppnishindrun í aðgangi að greininni

Þá segir Sigurbjörg í Morgunblaðinu að fulltrúar OECD hafi farið með rangt mál þegar því var haldið fram að hvergi í Evrópu væri bakaraiðn lögvernduð en hið rétta er að hún er lögvernduð í tíu Evrópulöndum. Einnig kemur fram í fréttinni að bakarar hafi bent á að engin samkeppnishindrun væri í aðgangi að greininni. Hver sem er geti sótt bakaranám og aldrei hafi komið til þess að nemar fái ekki samning, heldur hafi eftirspurn oft verið meiri en framboð á nemum. 

Bakarar spyrja hver trúverðugleiki vinnubragða við skýrsluna sé

Í fréttinni segir jafnframt að þessi útskýring hafi komið fulltrúa Samkeppniseftirlitsins á óvart og því spyrji bakarar sig hver trúverðugleiki vinnubragða við skýrsluna sé ef bakarar séu af handahófi dregnir inn í skýrslu um ferðamanna- og byggingariðnað og gamalt mál verði til þess að svo miklar breytingar eigi að verða á starfsumhverfi þeirra. Þá kemur fram að ekki hafi verið leitað til Landssambands bakarameistara og óskað eftir upplýsingum um starfsumhverfi iðnarinnar. 

Önnur OECD skýrsla segir sterkt iðnnámskerfi byggi á árangursríku jafnvægi

Í niðurlagi fréttarinnar segir að árið 2013 hafi OECD gefið út skýrslu um starfsmenntun á Íslandi þar sem segi: „Sterkt iðnnámskerfi er innan löggiltra starfsgreina og byggist á árangursríku jafnvægi milli starfsþjálfunar á vinnustað og utan hans og skýrum valkostum um framhaldsmenntun til iðnmeistararéttinda eða eftir öðrum leiðum.“

Morgunblaðið / mbl.is, 21. nóvember 2020.

Morgunbladid-21-11-2020