Fréttasafn



26. júl. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk

Gagnaversiðnaður góð viðbót við íslenskt atvinnulíf

Gagnaversiðnaðurinn er góð viðbót við íslenskt atvinnulíf og skiptir máli að fjallað sé um hann af skynsemi og á réttum forsendum. Öflugur gagnaversiðnaður stuðlar að enn frekari tækifærum fyrir íslenskan hugverkaiðnað og skynsamri nýtingu á auðlindum Íslands. Þetta segir Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera, í grein í Fréttablaðinu í dag og segir rétt að halda því til haga að ekki hafi verið virkjað sérstaklega fyrir eitt einasta gagnaver á Íslandi. Þess í stað hafi þau nýtt þá orku sem sé til staðar í framleiðslukerfinu sem annars hefði runnið ónotuð til sjávar. Gott dæmi um þetta sé nýtt gagnaver á Blönduósi sem geri Landsvirkjun kleift að nýta betur afkastagetu Blönduvirkjunar og selja áður ónýtta raforku án mikils viðbótarkostnaðar. Gagnaverið hafi einnig tryggt grundvöll að uppbyggingu innviða í sveitarfélaginu og sömu sögu sé að segja af Suðurnesjum.

Íslensk gagnaver skapa 8 milljarða í gjaldeyristekjur

Þá segir í greininni að gagnaver séu mikilvægur hluti af hugverkaiðnaði á Íslandi og skapi þau ein og sér ríflega 8 milljarða í gjaldeyristekjur á ári. Auk fjölda starfa á uppbyggingartíma gagnavers skapi það á bilinu 3-5 bein og afleidd stöðugildi fyrir hvert megavatt af raforku sem nýtt sé í rekstrinum. Tilurð gagnaversiðnaðar á Íslandi tryggi jafnframt að hugverkaiðnaðurinn hýsir og vinnur gögn hér á landi og býr til þekkingu og áhugaverð tækni- og sérfræðistörf.

Orkuverð, íslenskt veðurfar, umhverfisvænt og aðgengi að sérfræðingum

Jóhann segir í grein sinni að gagnaver laði til sín erlenda viðskiptavini sem sjái hag sinn í að nýta fyrirsjáanlegt, en ekki endilega lægra orkuverð en í nágrannalöndum, ásamt hagfelldu íslensku veðurfari til að að reka sinn tölvubúnað á skilvirkan hátt. Umhverfisvæn raforka og gott aðgengi að sérfræðingum hafi einnig áhrif en saman skapi þessi fjögur atriði ákjósanleg skilyrði fyrir aðila sem vilja hágæða þjónustu og hagstæða, umhverfisvæna orkugjafa, inn í sitt kolefnisbókhald. Hann segir jafnframt að fjölbreytni viðskiptavina hafi aukist mikið á síðustu misserum en bankar, tryggingafélög, virtir erlendir háskólar og bílaframleiðendur séu meðal þeirra sem nýta sér þjónustu íslenskra gagnavera í dag. 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 26. júlí 2019.