Gervigreind rædd á aðalfundi Félags ráðgjafarverkfræðinga
Aðalfundur Félags ráðgjafarverkfræðinga, FRV, fór fram í Húsi atvinnulífsins í gær. Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, var fundarstjóri. Í upphafi fundar héldu þeir Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu, og Runólfur Þór Ástþórsson, framkvæmdastjóri VSÓ, erindi um innleiðingu gervigreindar í störf verkfræðinga á komandi árum. Í erindinu var fjallað um áskoranir og tækifæri sem koma með þróun gervigreindar og farið yfir hvernig verkfræðistofur hér á landi eru þegar farnar að beita tækninni til að auka framleiðni.
Reynir Sævarsson, formaður FRV, fór í kjölfarið yfir störf stjórnar á árinu og kom fram í máli hans að það hafi verið viðburðarríkt. Stjórnin hafi á árinu lagt áherslu á innhýsingu hins opinbera á sérfræðiþjónustu, aukin samtöl við verkkaupa, útboðsskilmála og verklag verkkaupa, samningsskilmála og notkun ÍST35 / FIDIC, kostnaðaráætlunarverkefni, þjónustulýsingarverkefni, stafræna vegferð mannvirkjagerðar og endurskoðun byggingarreglugerðar.
Bergrós Arna Sævarsdóttir, formaður Yngri ráðgjafa innan FRV, fór yfir skýrslu stjórnar YR um störf félagsins á liðnu starfsári.
Ásta Logadóttir hjá Lotu gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og var henni þakkað fyrir góð störf í þágu félagsins. Bóas Eiríksson hjá Lotu gaf kost á sér í stjórn FRV.
Í stjórn FRV á komandi starfsári sitja Reynir Sævarsson hjá Eflu, formaður, Hjörtur Sigurðsson hjá VSB verkfræðistofu, Bóas Eiríksson hjá Lotu, Guðrún Dröfn Gunnarsdóttir hjá Verkís, Haukur J. Eiríksson hjá Hnit. Varamenn eru Gunnar Sverrir Gunnarsson hjá COWI og Runólfur Þór Ástþórsson hjá VSÓ ráðgjöf.
Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu.
Runólfur Þór Ástþórsson, framkvæmdastjóri VSÓ.
Reynir Sævarsson formaður FRV.