Fréttasafn25. mar. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Grænvangur er græna púslið sem vantaði

Nýsköpun er græn í eðli sínu þar sem nýjar lausnir eru umhverfisvænni en þær sem fyrir eru og hægt er að glíma við viðfangsefnin á nýjan, grænni hátt. Vonandi verður nýsköpun hér á landi ekki síður en erlendis á þessu sviði en það ræðst af því hvort umgjörð nýsköpunar sé samkeppnishæf við önnur ríki. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI og formanns Grænvangs, á ársfundi Grænvangs sem var í beinu streymi frá Kaldalóni í Hörpu síðastliðinn þriðjudag að viðstöddum forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur.

Í máli Sigurðar kom meðal annars fram að verkefni Grænvangs væru komin vel af stað og á næstu vikum verði kynntar hugmyndir um markmið og áherslur Grænvangs til næstu fimm ára. Hann sagði samstarf stjórnvalda og atvinnulífs skipta miklu máli og geti raunar ráðið úrslitum um árangurinn en að stofnun Grænvangs árið 2019 hafi gefið góð fyrirheit hvað þetta varðar og segja megi að Grænvangur sé græna púslið sem vantaði til að fullgera myndina um loftslagsvæna framtíð með efnahagslegum ávinningi.

Þá kom fram í ávarpi Sigurðar að mikið og gott undirbúningsstarf hafi verið unnið sem muni nýtast vel í markaðssókn erlendis og í samstarfi fyrirtækja og stjórnvalda innanlands. Hann sagði að við hér á Íslandi höfum góða sögu að segja í þessum efnum enda höfum við nýtt þau gæði sem landið gefur okkur. Öll raforka sem framleidd sé hér á landi sé endurnýjanleg og þar að auki nýtum við jarðvarma til húshitunar. Þannig séum við fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir sem keppist við að auka vægi endurnýjanlegrar orku. 

Hann sagði að með því að efla eftirspurn eftir íslenskri sérfræðiþekkingu erlendis örvum við hagvöxt, sköpum eftirsótt störf og ýtum undir nýsköpun á þessu sviði en Íslendingar hafi nú þegar þróað loftslagslausnir sem skipti máli fyrir heiminn. Nýsköpun sé eina leiðin framávið í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum. Með nýsköpun verði til nýjar umhverfisvænni lausnir sem leysi af hólmi eldri tækni og ferla, eða hreinlega opni nýjar víddir eins og við höfum séð hér á landi með CarbFix og fleiri dæmum. Sigurður sagði það vera jákvætt að sjá samræmda kynningu á íslenskum grænum lausnum og framlagi okkar til loftslagsmála á erlendri grundu undir formerkjum Green by Iceland. Íslendingar hafi verið leiðandi í nýtingu endurnýjanlegrar orku í áratugi og það sé tímabært að kynna það saman á erlendum vettvangi.

Graenvangur_adalfundur_23032021-6Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í ræðupúlti á ársfundi Grænvangs.

Hér er hægt að nálgast upptöku frá fundinum:

https://www.youtube.com/embed/0JGwd4V-BBo?start=1220