Fréttasafn



15. maí 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

Grafalvarleg staða á Húsavík

Líkur eru á rekstrarstöðvun PCC á Bakka en fyrirtækið framleiðir kísilmálm með afkastagetu upp á 35 þúsund tonn á ári. Um 200 manns starfa við fyrirtækið, sem launþegar og verktakar. Rekstrarstöðvun hefði ekki aðeins neikvæð áhrif á nærsamfélagið heldur einnig á utanríkisverslun. Varpar þetta ljósi á samkeppnishæfni iðnaðarins en samkeppnishæfni kísilmálmframleiðslu gagnvart erlendum framleiðendum hefur verið að versna. Framleiðslan hér á landi á í samkeppni við fyrirtæki í öðrum löndum sem njóta opinbers stuðnings eða ívilnana. Víða eru lagðir tollar á innflutning kísilmálms. Þá hefur flutningskostnaður raforku hér á landi hækkað verulega undanfarin ár sem skekkir samkeppnisstöðuna enn frekar.

Útflutningstekjur kísiliðnaðar námu ríflega 40 milljörðum króna árið 2024 en flutt voru út ríflega 153 þúsund tonn. Fjárfestingar kísiliðnaðar hafa verið umtalsverðar á síðustu árum en frá 2019 hafa fjárfestingar greinarinnar numið samtals 28,6 milljörðum króna miðað við verðlag ársins 2024. Kísill er víða notaður, t.d. í raftækjum, áli og stáli og í snyrtivörum og ýmsum iðnaði. Má því segja að kísill komi við sögu í daglegu lífi meginþorra fólks. Evrópusambandið og Bandaríkin hafa skilgreint kísil sem mikilvægt hráefni. SI hafa gefið út staðreyndablað um kísiliðnað á Íslandi sem finna má hér.

Framkvæmdastjóri SI átti fundi á Bakka og á Húsavík með Kára Marís Guðmundssyni, forstjóra PCC, Aðalsteini Árna Baldurssyni, formanni Framsýnar og fulltrúum Norðurþings, þeim Katrínu Sigurjónsdóttur sveitarstjóra, Eiði Péturssyni , Helenu Eydísi Ingólfsdóttur, Hjálmari Boga Hafliðasyni og Bergþóri Bjarnasyni. Það munar svo sannarlega um starfsemi PCC í nærsamfélaginu, ekki bara fyrir starfsfólkið heldur líka fyrir sveitarfélagið auk umsvifa sem leiða til viðskipta við fyrirtæki á svæðinu. Rekstrarstöðvun PCC yrði þungt högg fyrir samfélagið.

„Það var mikilvægt að koma til Húsavíkur, sjá aðstæður og hitta fólk. Staðan er grafalvarleg en vonandi verður hægt að finna fleti til þess að halda starfseminni á Bakka áfram. Við hjá SI munum sannarlega leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða. Það er stöðugt verkefni að efla samkeppnishæfni Íslands, ekki síst nú þegar taktur alþjóðavæðingar breytist sem og viðskiptahættir í heiminum. Við munum hér eftir sem hingað til vinna með félagsmönnum okkar og stjórnvöldum að því,“ segir Sigurður.

IMG_0786

Aðalsteinn Árni Baldursson, Kári Marís Guðmundsson og Sigurður Hannesson.

Hjálmar Bogi Hafliðason, Katrín Sigurjónsdóttir, Sigurður Hannesson, Helena Eydís Ingólfsdóttir, Bergþór Bjarnason og Eiður Pétursson.