Fréttasafn



19. apr. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Gríðarlega stórt vegakerfi á Íslandi sem þarf að viðhalda

Rætt er við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, á Morgunvakt Rásar 1 um stöðuna í vegakerfinu hér á landi þar sem viðhaldsskuld er metin á 160-180 milljarða króna. „Við höfum gefið út innviðaskýrslu í tvígang, 2017 og svo 2021 og ætlum okkur að gefa út nýja skýslu á næsta ári. Þetta er skýrsla sem við fáum að fyrirmynd frá systursamtökum okkar á Norðurlöndum og er unnin með svipuðum hætti á öllum Norðurlöndunum. Þarna eru okkar helstu sérfræðingar sem reikna þessa tölu út frá stærð kerfisins og þörfinni.“ 

Jóhanna Klara segir að við séum með gríðarlega stórt vegakerfi á Íslandi. „Við erum með í kringum 25.700 kílómetra af vegakerfi á Íslandi sem skiptist í sveitavegi og vegi ríkisins. Ef að við mundum í dag byrja alveg frá grunni að byggja þetta vegakerfi upp þá mundi það kosta okkur á bilinu 930 til 980 milljarða. Og eign ríkisins væri þá um 800 milljarðar. Við sjáum að þetta er raunverulega ein af stærstu eignum ríkisins í dag.“ Hún segir að það sé minna talað um vegina okkar sem eign. „Það er mikið rætt um húsin okkar og það er mikið verið að tala um byggingarnar en vegirnir eru lífæð samfélagsins, gríðarlega mikilvæg og verðmæt eign samfélagsins. Sérstaklega í landi eins og okkar. Við erum búin að byggja upp gríðarlega metnaðarfullt vegakerfi. Ég held að það séu bara Finnar sem eru með lengra vegakerfi en við miðað við íbúðafjölda. Við þurfum að sinna því og viðhalda því og sjá til þess að komandi kynslóðir fái líka að njóta þessa kerfis sem var fyrst og fremst byggt upp í kringum 1978 til 2012 sem við erum að byggja upp almennilegt vegakerfi. Við verðum að gefa komandi kynslóðum líka tækifæri að nýta þetta.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Jóhönnu Klöru í heild sinni frá mínútu 33.

Rás 1, 19. apríl 2024.