Fréttasafn



22. ágú. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Grípa á til vaxtalækkunar til að mæta samdrætti

„Á margan hátt eru sérstakar aðstæður uppi en við búum svo vel, ólíkt því sem er á meginlandi Evrópu, þar sem er ekki hægt að grípa til vaxtanna til að mæta samdrætti í hagkerfinu. Við eigum að vera óhrædd við að beita því. Sérstaklega þar sem verðbólgan er bara rétt yfir verðbólgumarkmiði og verðbólguvæntingar eru það líka,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í frétt Morgunblaðsins í dag um nýja greiningu Samtaka iðnaðarins

Gott svigrúm fyrir Seðlabankanna að lækka vexti

Ingólfur segir jafnframt að nýjar mælingar frá Seðlabankanum á væntingum markaðsaðila sýni að verðbólguvæntingar þeirra hafa minnkað frá síðustu mælingum. „Það gefur Seðlabankanum gott svigrúm til að lækka stýrivexti og auðvelda heimilum og fyrirtækjum að takast á við samdrátt.“ 

Í fréttinni kemur fram að í greiningu SI segi að uppruni samdráttarins sé í útflutningi en eftir mikla fjölgun allt síðastliðið hagvaxtartímabil hafi erlendum ferðamönnum fækkað nokkuð í ár eða ríflega 13% á fyrstu sjö mánuðum þessa árs. Samhliða hafi dregið úr tekjum af erlendum ferðamönnum en samdráttur hafi m.a. verið í tekjum af flugi, gistingu, veitingarekstri og bílaleigu. Atvinnuleysi hafi mælst 3,4% (6.831 einstaklingar) í júlí á landinu í ár og á sama tíma í fyrra hafi atvinnuleysi verið 2,2% (2.662 einstaklingar). Samhliða þessari þróun hafi hægt á vexti einkaneyslu. Ásamt því sé undirbúnings- og framkvæmdatími orðinn langur í flestum verkefnum á sviði byggingar- og mannvirkjagerðar. Samdráttur í sementssölu og innflutningi byggingarefnis ásamt fækkun skoðaðra krana á vinnustað og erlendra starfsmanna í byggingar- og mannvirkjaiðnaði beri merki um breyttan gang í fjárfestingu í hagkerfinu. 

Morgunblaðið / mbl.is, 22. ágúst 2019.

Morgunbladid-22-08-2019