Fréttasafn25. maí 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Hægt að hraða viðsnúningi með því að einfalda umhverfið

Rætt er við Eyrúnu Arnarsdóttur, viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI, í helgarútgáfu Morgunblaðsins sem segir ánægjulegt að sjá merki um viðsnúning í nýrri greiningu SI þar sem kemur fram að niðurstöður könnunar sem gerð var meðal aðildarfyrirtækja innan Samtaka arkitektastofa, SAMARK, sýni að veltan hjá arkitektastofum hafi aukist í ársbyrjun eftir tveggja ára samdráttarskeið. „Þetta gefur kannski ákveðnar vísbendingar um stöðuna fram undan í byggingariðnaðinum. Það má samt ekki líta fram hjá því að umfangið er enn lítið í sögulegu samhengi. Við hjá SI teljum að hægt sé að hraða þessum viðsnúningi með því að einfalda umhverfi byggingar- og skipulagsmála. Það er mikilvægt að samræma afgreiðslu hjá sveitarfélögunum og ljúka innleiðingu á rafrænum skilum og undirritun hönnunargagna. Við erum til dæmis að sjá prentkostnað fara upp í nokkrar milljónir í einstaka verkum,“ segir Eyrún. Hún segir að heilt yfir hafi afgreiðsluferlið í skipulagsmálum verið tímafrekt og æskilegt væri að húsnæðis-, bygginga- og skipulagsmálin væru á höndum eins ráðuneytis, með það í huga sé fagnaðarefni að Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra boði umbætur á því sviði. 

Mörg verkefni tengjast sveitarfélögum og opinberum verkefnum

Einnig er rætt við Jón Ólaf Ólafsson, formann SAMARK, sem segir í frétt Morgunblaðsins að umsvifin séu að aukast á ýmsum sviðum hjá arkitektum. „Mörg verkefnin tengjast sveitarfélögunum og opinberum verkefnum. Það er náttúrulega rífandi gangur í íbúðabyggingum. Einn verktaki hafði á orði að byggingariðnaðurinn hefði verði í blóma við aðstæður sem við þekktum ekki áður. Við höfum enda gengið í gegnum kreppu vegna kórónuveirufaraldursins. Byggingariðnaðurinn hefur ekki dregist saman með sama hætti og hann myndi gera við eðlilegar aðstæður. Það er svolítið sérstakt.“ Hann bendir á örvandi áhrif vaxtalækkana og segir gott hljóð í félagsmönnum SAMARK.

Morgunblaðið, 22. maí 2021.

Morgunbladid-22-05-2021