Fréttasafn15. sep. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök álframleiðenda á Íslandi Starfsumhverfi

Hækkun álverðs styrkir stoðir íslensks áliðnaðar

Rætt er við Pétur Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls, á mbl.is um hækkun álverðs sem hann segir mikil gleðitíðindi og styrki stoðir íslensks áliðnaðar eftir þungan rekstur síðustu ár. Í fréttinni kemur fram að álverð í kauphöll­inni með málma í London (LME) sé nú tæplega 2.900 dalir en var til samanburðar um 2.000 dalir í ársbyrjun. „Þess sjást þegar merki í 15 milljarða fjárfestingu Norðuráls í steypuskála og framundan eru ýmsar fjárfestingar í bættri orkunýtingu, viðhaldi og loftslagstengdum þróunarverkefnum. Það eru góð tíðindi fyrir þann gróskumikla álklasa fyrirtækja sem myndast hefur hér á landi, en bara í fyrra keyptu álverin innlendar vörur og þjónustu fyrir 25 milljarða af hundruðum fyrirtækja. Útflutningstekjur álvera á Íslandi námu um 2010 milljörðum í fyrra, þar af var innlendur kostnaður 93 milljarðar, og búast má við að þessar fjárhæðir eigi eftir að hækka verulega.“ 

Rafvæðing bílaflotans hefur áhrif

Í fréttinni kemur fram að Pétur bendi á að rafvæðing bílaflotans eigi þátt í aukinni spurn eftir áli. Með álinu megi gera ökutæki léttari og þannig auka drægni rafhlaða. Þá segir hann að íslensku álverin hafi keypt raforku fyr­ir um 50 milljarða í fyrra og þar sem orkusamningarnir séu að mestu álverðstengdir sé ljóst að arðsemi orkufyrirtækja hafi aukist verulega. „Það var fróðlegt að lesa það í Morgunblaðinu að miðað við meðalverð á þessu ári upp á 2.350 dollara á tonnið mætti búast við að útflutningstekjur ykjust um 60 milljarða vegna álframleiðslu. Vert er að benda á að álverðið er enn hærra núna eða tæpir 3 þúsund dollarar og horfur eru góðar, samkvæmt greiningaraðilum.“

Spá háu álverði út næsta ár

Þegar blaðamaður spyr hvers vegna ál hafi hækkað svo mikið í verði segir Pétur meðal annars að Kínverjar séu orðnir nettó innflytjandi á áli. Það séu mikil umskipti frá síðustu árum. Taka muni tíma að auka framboðið samhliða því sem eftirspurnin sé að aukast. Fyrir vikið spái greiningaraðilar háu álverði út næsta ár. Þá segi hann að dregið hafi verið úr framleiðslu í faraldrinum og birgðastaða fyrirtækja sem framleiða úr áli verið í lágmarki, auk þess sem flöskuháls hafi myndast í flutningum.

mbl.is, 15. september 2021