Fréttasafn



10. sep. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Félag ráðgjafarverkfræðinga Mannvirki

Hagstjórnaraðgerðir milda niðursveiflu í byggingariðnaði

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, flutti erindi á aðalfundi Félags ráðgjafarverkfræðinga, FRV, um stöðu hagkerfisins með sérstaka áherslu á stöðu byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar. Í erindi Ingólfs kom meðal annars fram að merki um samdrátt finnist nú víða í byggingariðnaði og mannvirkjagerð. Hann sagði veltu í greininni hafa verið ríflega 9% minni á fyrri helmingi þessa árs en á sama tíma í fyrra og að fjöldi starfandi í greininni fækkaði um 10% frá því fyrir ári. Fjöldi atvinnulausra í greininni hafi aukist úr því að vera rétt tæplega 500 í júlí í fyrra í um 1.200 í júlí í ár. Ingólfur sagði að sögulega séð væri byggingariðnaður og mannvirkjagerð ein sveiflukenndasta grein hagkerfisins og efnahagssveiflan birtist í sveiflum í greininni með ýktum hætti. „Niðursveiflan í greininni nú er þó minni en mætti ætla út frá niðursveiflunni í hagkerfinu og staða greinarinnar sérstök að því leyti. Ástæðuna fyrir því má að hluta rekja til hagstjórnaraðgerða sem hafa mildað niðursveiflu fjárfestingar í hagkerfinu og verðmætasköpun greinarinnar.“

Átaksverkefni og Allir vinna hjálpa til við að skapa vöxt

Þá kom fram í máli Ingólfs að gangurinn á einstaka þáttum byggingamarkaðarins væri afar mismunandi. „Samdráttur er umtalsverður í atvinnuvegafjárfestingu og fjárfestingu í íbúðarhúsnæði, sérstaklega á fyrstu byggingarstigum. Þannig mældist um 14% samdráttur í veltu í byggingu húsnæðis á fyrri helmingi þessa árs. Hins vegar er vöxtur í fjárfestingu hins opinbera í efnislegum innviðum, er ríki og sveitarfélög hafa ráðist í ýmis átaksverkefni á því sviði til að skapa mótvægi við efnahagsleg áhrif COVID. Einnig hefur viðhaldsmarkaðurinn verið í miklum vexti en átakið Allir vinna hefur hjálpað til að skapa þann vöxt.“

Samdráttur í fjárfestingum í íbúðarhúsnæði er áhyggjuefni

Þá sagði Ingólfur að staða íbúðarmarkaðarins væri einnig sérstök í þessari niðursveiflu. Raunverð íbúða hafi hækkað nokkuð undanfarið og hafi hækkunartakturinn verið að aukast frekar en hitt þrátt fyrir sögulega mikinn samdrátt í hagkerfinu. „Þannig mælist nú 7,4% verðhækkun á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Veltan á íbúðamarkaðinum hefur einnig verið að aukast og meðalsölutími eigna að styttast. Ástæður þessa eru þær helstar að vextir íbúðalána hafa lækkað umtalsvert, kaupmáttur launa er enn vaxandi og fólksfjölgun í landinu þrátt fyrir niðursveifluna. Í þessu ljósi er sá samdráttur í fjárfestingum í íbúðarhúsnæði sem nú mælist áhyggjuefni en minna framboð af fullbúnum íbúðum skapar enn frekari hækkunarþrýsting á verð íbúða.“    

Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs frá fundinum.