Halldór Snær nýr formaður Samtaka leikjaframleiðenda
Halldór Snær Kristjánsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Myrkur Games, var kjörinn formaður Samtaka leikjaframleiðenda, IGI, á aðalfundi félagsins 18. janúar síðastliðinn. Halldór Snær hafði gegnt stöðu formanns eftir að fyrrum formaður sagði sig frá stjórnarstörfum í haust en þetta verður fyrsta heila starfsár Halldórs sem formanns. Halldór Snær er jafnframt fulltrúi IGI í Hugverkaráði SI. Ásamt Halldóri voru kjörnir í stjórn Eldar Ástþórsson frá CCP Games og Stefán Þór Björnsson frá Solid Cloud Games en fyrir sátu í stjórn Ívar Kristjánsson frá 1939 Games, Helga Bjarnadóttir frá Mainframe Industries, Kristján Einar Kristjánsson frá Directive Games og Diðrik Steinsson frá Porcelain Fortress. Viðskiptastjóri samtakanna hjá SI er Nanna Elísa Jakobsdóttir.
Á aðalfundi var venju samkvæmt farið yfir starfsárið en mikil ánægja var meðal félagsmanna á störf stjórnar og formanns. IGI hefur beitt sér ötullega í mannauðsmálum en stærsta hindrunin fyrir vexti leikjafyrirtækja er skortur á hæfu starfsfólki. Þannig lögðu samtökin áherslu á að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga og skrifuðu undir samning við Menntaskólann Ásbrú í Keili sem rekur einu brautina á framhaldsskólastigi sem einblínir eingöngu á tölvuleikjagerð.