Heimsókn í útgáfu- og menntatæknifyrirtækið IÐNÚ
Hulda Birna Kjærnested, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI og viðskiptastjóri Samtaka menntatæknifyrirtækja, heimsótti á dögunum útgáfu- og menntatæknifyrirtækið IÐNÚ sem er aðildarfyrirtæki SI og virkur félagsmaður í Samtökum menntatæknifyrirtækja. Tilefnið var að skyggnast inn í þróun og framtíðarsýn fyrirtækisins sem hefur verið leiðandi afl í útgáfu námsefnis fyrir iðn-, verk- og tækninám í 76 ár. Það var Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri IÐNÚ útgáfu, sem tók á móti Huldu.
Í heimsókninni ræddu Hulda og Heiðar Ingi um helstu áskoranir í námsgagnagerð á Íslandi, smæð markaðarins og kostnað við þróun námsefnis á íslensku, skort á heildstæðri hugbúnaðarlausn fyrir skólakerfið, þörf á að nýta tækni og gervigreind í frekari þróun efnis. IÐNÚ hefur verið öflugur þátttakandi í starfi Samtaka menntatæknifyrirtækja sem vinna að því að styrkja umgjörð og nýsköpun í námsgagnagerð og stafrænu menntaumhverfi á Íslandi. Hulda segir að heimsóknin undirstriki mikilvægi samvinnu atvinnulífs og menntakerfis þar sem fyrirtæki á borð við IÐNÚ útgáfu gegni lykilhlutverki í að móta framtíðarhæfni nemenda.
IÐNÚ hefur gefið út 500 titla
Frumkvöðlar í námsefnisgerð IÐNÚ útgáfa á rætur sínar að rekja til Iðnskólaútgáfunnar, sem stofnuð var árið 1949. Í dag hefur fyrirtækið gefið út samtals yfir 500 útgáfutitla og hefur markað sér sérstöðu með útgáfu bæði prentaðra og rafrænna kennslugagna. Á undanförnum tíu árum hefur fyrirtækið verið að þróa tvíþætta útgáfutækni, þar sem prentaðar bækur eru studdar með gagnvirku rafrænu auka- og stoðefni. Með því hefur IÐNÚ útgáfa náð að mæta fjölbreyttum kennslufræðilegum þörfum skólasamfélagsins. Frá árinu 2014 hefur IÐNÚ útgáfa gefið út gagnvirkar vefbækur undir vefnum www.vefbok.is. Þar býðst nemendum og kennurum námsefni með myndböndum, orðskýringum, glósum og verkefnum, þar eru stillanleg viðmót fyrir ólíkar þarfir, lægri kostnaður og aðgengi að námsefni hvar og hvenær sem er. Þessi stafræna nálgun hefur reynst sérlega gagnleg í greinum eins og matreiðslu, bakaraiðn, mannvirkjagerð og vinnuvernd, þar sem sveigjanleiki og sjónræn nálgun skipta miklu máli.
Fimmtán iðn- og verkmenntaskólar stofnuðu IÐNÚ
IÐNÚ útgáfa er rekin af félaginu IÐNMENNT ses. sem er sjálfseignarstofnunar er stofnuð var árið 1999 af fimmtán iðn- og verkmenntaskólum á framhaldsskólastigi sem sameinuðu krafta sína í að efla og þróa námsefni fyrir iðn-, tækni- og starfsnám. Aðildarskólar IÐNMENNTAR eru í dag Borgarholtsskóli (BHS), Fjölbrautaskólinn í Breiðholti (FB), Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra (FNV), Fjölbrautaskóli Suðurlands (FSu), Fjölbrautaskóli Vesturlands (FVA), Fjölbrautarskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS), Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (FíV), Menntaskólinn í Kópavogi (MK), Menntaskólinn á Ísafirði (MÍ), Tækniskólinn (TÍ), Verkmenntaskólinn á Akureyri (VMA) og Verkmenntaskóli Austurlands (VA), Þessir skólar ná yfir landið allt og tryggja að nemendur landsbyggðar og höfuðborgar hafi sambærilegt aðgengi að vönduðu og nútímalegu kennsluefni.