Fréttasafn24. nóv. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Samtök leikjaframleiðenda

Heimsóttu tölvuleikjabraut Menntaskólans á Ásbrú

Fulltrúar Samtaka leikjaframleiðenda og Samtaka iðnaðarins heimsóttu tölvuleikjabraut Menntaskólans á Ásbrú hjá Keili í vikunni. Það voru þau Þorgeir Frímann Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda (IGI) og framkvæmdastjóri Directive Games, og Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI sem hittu Ingigerði Sæmundsdóttur, forstöðumann Keilis. Hún tók á móti gestunum, sagði frá stefnu skólans og verkefnum og sýndi kennsluaðstöðu tölvuleikjabrautarinnar. Með í för voru þrír íslenskir nemendur sem leggja stund á háskólanám í tölvuleikjagerð frá norska háskólanum Noroff Oslo.

Stúdentsbraut í tölvuleikjagerð hjá Keili var komið á fót árið 2018 en unnið var að námsbrautinni í samstarfi við IGI og tölvuleikjafyrirtækið CCP sem veittu faglega ráðgjöf við gæðastjórnun og framkvæmd námsins. Námið byggir á hagnýtum verkefnum með sterkum tengslum við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. Markmiðið er að bjóða upp á nám í tölvuleikjagerð sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í tölvuleikjaiðnaði.

Fulltrúar IGI og SI hittu nemendur skólans og kennara í heimsókninni. Stefnt er að því að efla samstarfið milli Keilis og IGI enn frekar, til að mynda með gestafyrirlestrum frá fulltrúum félagsmanna IGI og með því að hvetja fleiri leikjafyrirtæki til þess að taka að sér verkefnaráðgjöf til framhaldsskólanema í auknum mæli.

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Ásgeir, Freysteinn og Trausti, nemendur á öðru og þriðja ári á tölvuleikjabraut í Noroff Oslo, Þorgeir Frímann Óðinsson, formaður IGI, Ingigerður Sæmundsdóttir, forstöðumaður Keilis, og Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI.