Fréttasafn



31. okt. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Hugmyndalandið

Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifa grein í Morgunblaðið með yfirskriftinni Hugmyndalandið þar sem þeir segja meðal annars að miklar framfarir hafi átt sér stað á Íslandi á undanförnum áratugum. 

Í greininni lýsa þeir því hvernig Ísland hefur þróast úr fábrotnu samfélagi yfir í fremstu röð í heiminum með því að fjárfesta í innviðum, menntun og nýsköpun. Þetta hafi skapað frjóan jarðveg fyrir fjölbreytt atvinnulíf og velsæld, en nú sé tími til að sækja fram og stuðla að enn meiri framförum. „Samtakamátturinn og viljinn til þess að byggja upp færði okkur stóra sigra en nú þarf að hefja nýja sókn á ýmsum sviðum. Líta til framtíðar og halda áfram að sækja tækifærin. Hrinda öflugum hugmyndum í framkvæmd og halda áfram á braut framfara, landsmönnum öllum til hagsbóta. Þannig verður Ísland Hugmyndalandið.“

Þeir segja að hugverkaiðnaðurinn sé ein mest vaxandi grein atvinnulífsins á Íslandi og hafi vaxið um 20% milli ára. Útflutningur úr greininni gæti numið 320 milljörðum króna í ár, sem sýni mikilvægi nýsköpunar og stuðnings stjórnvalda. Í greininni er bent á að áframhaldandi hagfelld rekstrarskilyrði séu nauðsynleg til að stuðla að frekari vexti hugverkaiðnaðarins, þar sem mörg fyrirtæki gætu flutt starfsemi sína úr landi ef þau sæu hag sínum betur borgið annars staðar.

Í lok greinarinnar benda höfundar á mikilvægi þess að líta til sögunnar og taka góðar ákvarðanir til að tryggja að Ísland verði áfram hugmyndalandið. Það feli í sér að skapa skilyrði þar sem athafnasamt fólk geti nýtt hæfileika sína til að bæta lífskjör þjóðarinnar.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Morgunblaðið, 31. október 2024.