Fréttasafn



8. sep. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Hugverkaiðnaður verði öflugasta stoðin

Hugverkaiðnaður hefur fest sig í sessi sem fjórða stoð útflutnings til viðbótar við orkusækinn iðnað, sjávarútveg og ferðaþjónustu. Á árinu 2021 námu útflutningstekjur hugverkaiðnaðar ríflega 192 milljörðum króna og hafa þær vaxið um 91% frá árinu 2013 eða um 91 milljarð króna. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein í Viðskiptablaðinu með yfirskriftinni Hugverkaiðnaður verði öflugasta stoðin.

Miklar umbætur á skilyrðum og hvötum til nýsköpunar

Sigurður segir að fyrirtæki í hugverkaiðnaði eigi það sameiginlegt að fjárfesta í rannsóknum og þróun sem sé uppspretta verðmætasköpunar í greininni. Tækifærum í hugverkaiðnaði séu fá takmörk sett, hvort sem litið sé til tölvuleikjagerðar, líftækniafurða, heilbrigðistækni, hugbúnaðar eða hátækni á ýmsum sviðum „Þessi mikli vöxtur hugverkaiðnaðar undanfarin ár er ekki tilviljun. Hann kemur til vegna öflugra frumkvöðla og stórstígra breytinga á skilyrðum til nýsköpunar hér á landi sem stjórnvöld hafa ráðist í. Stjórnvöld hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar til að efla hugverkaiðnaðinn með miklum umbótum á skilyrðum og hvötum til nýsköpunar, meðal annars með auknum skattahvötum vegna rannsókna- og þróunar fyrirtækja.“

Metnaðarfullt og raunhæft markmið að hugverkaiðnaður verði stærsta stoðin 2030

Sigurður segir vöxt í hugverkaiðnaði fagnaðarefni af ýmsum ástæðum. Fyrirtæki í hugverkaiðnaði skapi eftirsóknarverð og verðmæt störf. Hugverkaiðnaður sé jafnframt síður háður utanaðkomandi sveiflum og áföllum. Nú þegar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafi sett markmið um að hugverkaiðnaður verði stærsta stoðin árið 2030 sé ekki seinna vænna en að setja af stað frekari umbætur. Markmiðið sé bæði metnaðarfullt og raunhæft. Jarðvegurinn sé frjór fyrir frekari vöxt og þurfi því að huga vel að því sem upp á vanti til að settum markmiðum verði náð.

Stjórnvöld greiði götu erlendra sérfræðinga hingað til lands

Helsta vaxtahindrunin í dag er skortur á sérfræðingum segir Sigurður í greininni. Nýleg greining SI sýni að það vanti um 9 þúsund sérfræðinga á næstu fimm árum til að hámarka vaxtagetu fyrirtækja í hugverkaiðnaði. Hann segir íslenskt menntakerfi þurfa að mennta fleiri sérfræðinga en ljóst sé að það þurfi einnig mikinn fjölda erlendra sérfræðinga til starfa hér á landi ef vaxtaáformin eigi fram að ganga. „Það er því mikilvægt að stjórnvöld breyti reglugerðum þannig að hægt verði að greiða götu þeirra hingað til lands, líkt og önnur ríki gera til að laða til sín erlenda sérfræðinga. Engan tíma má missa Samtök iðnaðarins vænta mikils af stjórnvöldum þegar kemur að næstu skrefum.“

Hagvaxtarspár taka ekki mið af mögulegum vexti hugverkaiðnaðar

Í niðurlagi greinarinnar segir Sigurður að hagspár virðist ekki taka mið af mögulegum vexti hugverkaiðnaðar og því séu hagvaxtarspár líklega að vanmeta vöxt framtíðar. Það séu góðar fréttir fyrir landsmenn en framtíðin sé í okkar höndum. Einnig séu það góðar fréttir fyrir aðþrengdan ríkissjóð þar sem auknum vexti fylgi auknar tekjur. Það sé því sannarlega bjart yfir ef litið sé til næstu tíu ára ef okkur auðnast að taka réttar ákvarðanir.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Viðskiptablaðið, 8. september 2022.

Vidskiptabladid-08-09-2022