Fréttasafn10. nóv. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Hugverkaráð SI mótar áherslumál tækni- og hugverkaiðnaðar

Nýtt Hugverkaráð SI kom saman á vinnudegi í Húsi atvinnulífsins fyrir skömmu til þess að móta og skilgreina sýn ráðsins, markmið fyrir starfsárið og aðgerðir til þess að markmiðum verði náð.

Hlutverk Hugverkaráðs SI er að sameina undir einum hatti fjölbreyttar greinar tækni- og hugverkaiðnaðar og stuðla að því að starfsskilyrði á Íslandi fyrir fyrirtæki í iðnaðinum séu framúrskarandi í alþjóðlegum samanburði. Á vinnudeginum kom fram að hugverkaiðnaður hafi alla burði til þess að verða stærsta útflutningsstoðin í íslensku efnahagslífi og að það myndi hafa mjög jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Einnig kom fram að vöxtur hugverkaiðnaðar bæti lífskjör á Íslandi og hann hafi sveiflujafnandi áhrif á hagkerfið og fjölgar verðmætum störfum með háa framleiðni. Auðlind hugverkaiðnaðar sé fjárfesting í rannsóknum og þróun, nýsköpun, sem sé nauðsynleg til þess að leysa aðsteðjandi samfélagslegar áskoranir.

Markmið ráðsins: 

  1. Skattahvatar til nýsköpunar verði festir í sessi
  2. Betra menntakerfi sem stuðlar að nýsköpunarhugsun og þekkingu í tæknigreinum
  3. Stuðlað verði að komu erlendra sérfræðinga til Íslands 
  4. Regluverk taki mið af raunveruleika tækni- og hugverkafyrirtækja
  5. Tækniumgjörð styðji við vöxt tækni- og hugverkaiðnaðar
  6. Aðgengi að fjármagni fyrir verðmætar hugmyndir sé framúrskarandi á Íslandi 
  7. Efla ásýnd iðnaðarins

 IMG_8304

IMG_8305

IMG_8308

IMG_8303