Iðnaðarstefna stökkpallur inn í næsta hagvaxtarskeið
Samtök iðnaðarins fagna því að ríkisstjórnin boði iðnaðarstefnu fyrir Ísland en slík stefna getur orðið stökkpallur okkar inn í næsta hagvaxtarskeið og greitt götu vaxtar og verðmætasköpunar segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein í Viðskiptablaðinu sem ber yfirskriftina Gulleyjan Ísland. Hann segir að iðnaðarstefna sé skýr sýn og leiðarljós fyrir fjárfestingu í vexti hagkerfisins og aukna framleiðni. Slík stefna þurfi að taka til umbóta í mörgum málaflokkum og miða að því að auka verðmætasköpun með markvissum hætti og auka framleiðni í hagkerfinu.
Full ástæða til bjartsýni fyrir framtíð Íslands
Sigurður segir meðal annars í greininni: „Undanfarna mánuði höfum við hjá Samtökum iðnaðarins ferðast um landið og rætt við fólk um tækifærin. Hvert sem við komum skynjum við vilja til fjárfestinga hvort heldur sem er í rótgrónum fyrirtækjum eða í nýjum iðnaði. Fólk og fyrirtæki leitast þannig við að fjárfesta í vexti framtíðar. Það er því full ástæða til bjartsýni fyrir framtíð Íslands.“ Hann segir að það sé þó ýmislegt sem haldi aftur af fjárfestingum. Vextir séu háir þannig að það er dýrt að framkvæma. Það skorti raforku eða heitt vatn til þess að knýja starfsemi. Ef orkan væri til staðar þurfi að koma henni á rétta staði og það sé mjög flókið og tímafrekt að fá leyfi til framkvæmda.
Án iðnaðarstefnu dregst Evrópa enn frekar aftur úr Bandaríkjunum og Kína
Sigurður segir að fleira mætti telja til en að þessi vandamál séu heimatilbúin. „En þar með er það undir okkur sjálfum komið að ryðja þessum hindrunum úr vegi.“ Hann segir að þetta eigi við víðar. Evrópa hafi dregist verulega aftur úr Bandaríkjunum í lífsgæðum og framþróun undanfarin ár. Af stærstu tæknifyrirtækjum heims séu fá stór í Evrópu meðan iðnaðurinn hafi blómstrað í Bandaríkjunum. Sigurður vekur athygli á að í skýrslu Mario Draghis bendi hann á að án iðnaðarstefnu muni Evrópa dragast enn frekar aftur úr í samkeppni við Bandaríkin og Kína.
Verðmætin verða til í atvinnulífinu en stjórnvöld móta leikreglurnar
Þá segir Sigurður í greininni að gott samfélag verði ekki til af sjálfu sér. Öflugt atvinnulíf sé kjarninn en það krefjist skýrrar sýnar, stefnu og samstillts átaks. Það sé þar sem verðmætin verði til sem geri okkur kleift að fjárfesta í velferð, menntun og innviðum. Hann segir að stjórnendur, starfsfólk og eigendur fyrirtækja hafi mikið um það að segja hvernig til tekst en það sé líka undir stjórnvöldum komið, þau móti leikreglurnar. Með ákvörðunum, orðum og gjörðum hafi stjórnvöld áhrif á hvernig til tekst á hverjum einasta degi.
Þá fer Sigurður í greininni inn á mikilvægi umbóta í menntamálum, innviðauppbyggingu, nýsköpun, raforkumálum og starfsumhverfi.
Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.
Viðskiptablaðið / vb.is, 21. maí 2025.