Fréttasafn



10. júl. 2024 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki

Iðnaður er stærsta útflutningsgreinin

Í nýrri greiningu SI kemur meðal annars fram að iðnaður sé stærsta útflutningsgrein hagkerfisins og því skipti það þjóðarbúið miklu með hvaða hætti greinin þróast. Útflutningstekjur greinarinnar námu 698 ma.kr. í fyrra sem er 38% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Til samanburðar námu útflutningstekjur ferðaþjónustunnar á síðasta ári 598 mö.kr. (32%) og sjávarútvegs 352 mö.kr. (19%).

Á síðasta ári voru fluttar út iðnaðarvörur fyrir 504 ma.kr. og þjónustuútflutningur iðnaðar nam 194 mö.kr. Með vexti hugverkaiðnaðar á síðustu árum hefur hluti þjónustu í heildarútflutningi iðnaðar farið vaxandi, en innan hugverkaiðnaðar er bæði vöru- og þjónustuútflutningur. Nam hluti þjónustu í útflutningi iðnaðar 28% árið 2023 samanborið við 14% árið 2013. Í þessu ljósi er það mikilvægara nú en áður að horfa til heildarumfangs útflutningstekna iðnaðar en ekki einungis útflutnings iðnaðarvara þegar þróun og vægi útflutnings greinarinnar er metið ásamt áhrifum þess á hagkerfið.

Útflutningstekjur hugverkaiðnaður voru 263 ma.kr. á síðasta ári sem er ríflega 14% af heildarútflutningstekjum hagkerfisins á því ári. Útflutningstekjur greinarinnar hafa verið í miklum og stöðugum vexti síðustu ár en þær námu 91 ma.kr. árið 2013. Hefur vöxturinn haldið áfram í ár en á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs námu útflutningstekjur hugverkaiðnaðar 86 mö.kr. sem er 7% aukning frá sama tíma í fyrra. Samtök iðnaðarins áætla að tekjurnar verði yfir 300 ma.kr. á þessu ári. 

Samdráttur í útflutningstekjum áls og kísiljárns olli því að heildarútflutningstekjur iðnaðar drógust saman á milli áranna 2022 og 2023 um 75 ma.kr. eða tæplega 10%. Fóru þær úr 773 mö.kr. niður í 698 ma.kr. Á móti samdrætti í útflutningi áls og kísiljárns vóg vöxtur í útflutningstekjum hugverkaiðnaðar. Þessi þróun hefur haldið áfram í ár en útflutningstekjur iðnaðar drógust saman um 7% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs og námu á þeim tíma 224 mö.kr. samanborið við 232 ma.kr. á sama tíma í fyrra. Ástæða samdráttarins á þessu ári er sá sami og í fyrra, þ.e. samdráttur í útflutningstekjum áls og kísiljárns.

Utflutningur-idnadar

Hér er hægt að nálgast greininguna.


Viðskiptablaðið , 10. júlí 2024.

RÚV, 10. júlí 2024.

mbl.is, 10. júlí 2024.

RÚV hádegisfréttir, 10. júlí 2024.

Skessuhorn, 10. júlí 2024.

Morgunblaðið, 11. júlí 2024.

Vb.is, 13. júlí 2024.

Vb.is, 14. júli 2024.

Austurfrétt, 17. júlí 2024.