Iðnaður í lykilhlutverki í hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB
Samtök iðnaðarins, SI, hafa um árabil gegnt lykilhlutverki í hagsmunagæslu íslensks iðnaðar í Evrópumálum. Með markvissri greiningu, nánu samstarfi við félagsmenn og virkum tengslum við innlenda og erlenda samstarfsaðila hafa SI byggt upp víðtæka þekkingu og öfluga aðkomu að málefnum sem varða Evrópusambandið og EES-samninginn.
Samtökin taka virkan þátt í samnorrænu samstarfi með systursamtökum á Norðurlöndum og eiga fulltrúa í ráðgjafarnefnd EFTA, sem er mikilvægur vettvangur fyrir samráð, upplýsingamiðlun og formlega aðkomu að Evrópumálum á fyrstu stigum. Þá eru SI aðilar að Business Europe, stærstu hagsmunasamtökum atvinnurekenda í Evrópu, og taka þátt í reglulegum fundum þar sem stefna og ákvarðanataka ESB eru til umfjöllunar.
Í umsögn SI um drög að forgangslista Íslands gagnvart ESB fyrir árin 2024–2029, sem lögð var fram í samráðsgátt stjórnvalda, er lögð rík áhersla á mikilvægi þess að samkeppnishæfni Íslands og sérstaða landsins séu höfð að leiðarljósi við innleiðingu EES-gerða. Samtökin vara við því að gengið sé lengra í íþyngjandi ákvæðum en nauðsynlegt er og ítreka nauðsyn þess að afstaða stjórnvalda byggi á vönduðu hagsmunamati og traustri upplýsingaöflun. Samtökin fagna því að meirhluti þeirra mála sem lögð eru fram í drögum að forgagnslista við hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB snerta iðnað. Má þar helst nefna hreinatvinnustefnu, CBAM, ETS, CRMA, NZIA, opinber innkaup, evrópska styrkjakerfið, gervigreindaráæltun og færniátak ESB.
SI hvetja til þess að komið verði á sameiginlegum samráðsvettvangi stjórnvalda og hagaðila þar sem ný mál á vettvangi ESB verði greind snemma, ekki síst í ljósi breyttra alþjóðlegra aðstæðna og aukinna áskorana í öryggis- og varnarmálum.
Samtökin leggja áfram áherslu á að íslenskur iðnaður hafi virka og faglega rödd í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og eru reiðubúin til áframhaldandi samstarfs við stjórnvöld í þágu markvissrar og samræmdrar hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu.
Hér er hægt að nálgast umsögn SI.