Fréttasafn18. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Iðnaðurinn eina útflutningsgreinin sem nýtir græna orku

„Iðnaðurinn er eina útflutningsgreinin sem nýtir græna orku til verðmætasköpunar á meðan aðrar greinar nota olíu. Þannig að ef þetta snýst bara um orkuskipti þá eru skilaboðin einfaldlega þau að við ætlum að draga úr vægi iðnaðar til þess að auka vægi sjávarútvegs og ferðaþjónustu,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í þættinum Vikulokin á Rás 1 síðastliðinn laugardag þar sem hann er meðal viðmælenda ásamt Björgu Evu Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar og Hjálmari Sveinssyni, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjavík. Í þættinum var rætt um frumvarp atvinnuveganefndar Alþingis til raforkulaga en á sunnudag var tilkynnt um að nefndin hafi ákveðið að fresta lokaafgreiðslu frumvarps um forgang að raforku fram í janúar.

Margir vankantar á frumvarpinu

Í þættinum kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi gagnrýnt frumvarpið og sent inn umsögn til þingnefndarinnar. Aðspurður um hvað það var í frumvarpinu sem samtökunum leist ekki á segir Sigurður samtökin telja að frumvarpið sé ekki hugsað til enda. Margir vankantar séu á því sem séu tæknilegs eðlis. Bent hafi verið á að frumvarpið snúist um skömmtun og skerðingu og margvíslegar heimildir séu til þess í dag. „Það eru heimildir í raforkulögum til Landsnets og dreifiveitna, það eru heimildir í reglugerðum til Landsnets,“ segir Sigurður og nefnir fleiri dæmi eins og heimildir Landsnets til inngripa og nefnir að í samningum við stórnotendur séu sérstakar heimildir til skerðingar við ákveðnar aðstæður. 

Orkumálastjóri með skoðun á hverjir fá að nýta raforku og hverjir ekki

Þá kemur fram í þættinum að Sigurður telji að krafa um auknar heimildir varpi ljósi á alvarleika málsins eins og það sé í dag og segir að framboð raforku á Íslandi hafi lítið sem ekkert aukist. „Orkumálastjóri hefur talað frjálslega um það hverjir ættu að fá að nýta raforku og hverjir ættu ekki að fá að nýta raforku,” segir Sigurður sem telur iðnaðinn vera hlunnfarinn í þeirri umræðu.

Hér er hægt að hlusta á Vikulokin á Rás 1. 

RÚV, 16. desember 2023.