Ísland þarf nýjan sæstreng fyrir gervigreindarvinnslu
„Við erum nú í nýjum heimi og ef þið ætlið ykkur að vera samkeppnisfær í þessum nýja heimi þurfið þið að ráða yfir annars konar ljósleiðaragetu. Þið þurfið að þreifa fyrir ykkur og yfirvöld þurfa að taka af skarið og fjárfesta í þessari tækni fram á við,“ segir William Barney, formaður Pacific Telecommunications Council, í frétt Þórdísar Arnljótsdóttur á RÚV en Barney var aðalfyrirlesari á fundi SI um þróun og áhrif gervigreindar í heiminum og stöðu Íslands í gervigreindarkapphlaupinu.
Sæstrengir stærsti þröskuldurinn fyrir Ísland
Í frétt RÚV kemur fram að Barney hafi starfað í Asíu þegar netbólan sprakk um síðustu aldamót og olli kreppu og að margir hafi nefnt hættu á að það sama gerist nú við geysilega fjárfestingu í uppbyggingu gervigreindar. „Allt var á uppleið, allt stefndi í rétta átt og stoppaði svo. Þetta er ekki ósvipað en einnig ólíkt. Á þeim tíma voru stórfyrirtækin ekki að fjárfesta. Að stórfyrirtækin fjárfesti nú er stóri munurinn.“ Þá segir Barney í fréttinni að Ísland hafi verið á réttri leið í tækniþróun og sé langt í frá að missa af lestinni. „Stærsti þröskuldurinn í vegi ykkar nú, því miður er Ísland eyja, en Vestur-Evrópa tengist með landlínum, svo þið verðið að notast við sæstrengi. Við teljum að þið þurfið að verja meira í þær grunnstoðir og það mun í raun breyta og gera þetta hagkvæmara fyrir gervigreindina, því þið búið yfir mjög ódýrri grænni orku.“
Samtöl í gangi um nýjan sæstreng
Í frétt RÚV er einnig rætt við Loga Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, sem tók þátt í umræðum á fundi SI og segir hann töluverðan áhuga á uppbyggingu hér vegna grænnar orku. „Tæknin er að þróast á veldisvexti þannig að ég held að allt gerist hraðar heldur en það gerðist í gær.“ Þegar fréttamaður spyr Loga hvort hann eigi von á að verði teknar ákvarðanir á árinu varðandi nýjan sæstreng svarar ráðherrann: „Það er ómögulegt að segja. En það eru samtöl í gangi og við skulum sjá til, til hvers það leiðir.“
RÚV, 19. október 2025.