Fréttasafn8. ágú. 2019 Almennar fréttir Umhverfis og orkumál

Ísland verði fyrirmynd annarra í umhverfismálum

Framtíðarsýn stjórnar Samtaka iðnaðarins felst í því að Ísland sé fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum sem geti skapað íslenskum iðnaði samkeppnisforskot. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í grein sinni í Morgunblaðinu í dag sem ber yfirskriftina Sjálfbær iðnaður. Hún segir að leiðin að minni losun gróðurhúsalofttegunda sé eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans og að mikill árangur hafi náðst hér á landi á síðustu áratugum, m.a. með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa til húshitunar og orkuvinnslu. Því til viðbótar hafi fyrirtæki mikinn vilja og metnað til að gera enn betur og meira og stuðla þannig að kolefnishlutleysi árið 2040 í samræmi við stefnu stjórnvalda. Þessi aukna áhersla muni m.a. leiða til nýsköpunar og þróunar í grænni tækni og snjöllum samgöngum.

Framleiðsla nær mörkuðum umhverfisvænni

Guðrún nefnir í grein sinni að flutningar á vörum milli landa hafi sín áhrif á umhverfið með losun gróðurhúsalofttegunda, jafnt skipaflutningar sem og flug. Framleiðsla nær mörkuðum sé því oftar en ekki umhverfisvænni auk jákvæðra samfélagslegra áhrifa. Þessu til viðbótar njóti Ísland sérstöðu því hér á landi sé raforka framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum og losun gróðurhúsalofttegunda því með minnsta móti ólík því sem gengur og gerist víðast hvar annars staðar.

Stjórnvöld styðji við sjálfbærni með vali á innlendri framleiðslu

Þá kemur fram í greininni að stjórnvöld hafi skýr markmið í loftslagsmálum og vinni nú að því að innleiða sjálfbærni hugsun í alla opinbera stefnumótun. Þarna fari áherslur stjórnvalda og iðnaðarins saman og ætti þetta að vera stjórnvöldum hvatning til að velja innlenda framleiðslu í meira mæli enda eyði hið opinbera um 40 krónum af hverjum 100 krónum í hagkerfinu. Þannig geti stjórnvöld haft jákvæð áhrif á umhverfið og stutt við sjálfbærni.

Hér er hægt að lesa grein Guðrúnar í heild sinni.