Íslensk gagnaver sífellt eftirsóttari á alþjóðavísu
Í tilefni samstarfssamnings Borealis Data Center við stórfyrirtækið IBM var efnt til málþings á Hilton Reykjavík Nordica síðastliðinn fimmtudag. Samningurinn gerir viðskiptavinum fyrirtækjanna kleift að bjóða sínum viðskiptavinum aðgang að grænni skýjaþjónustu hér á landi. Í tilkynningu kemur fram að þetta geri aðilum sem vinna með viðkvæm gögn meðal annars kleift að tryggja að gögnin séu ávallt hýst á Íslandi. Á málþinginu kom meðal annars fram að gagnaversiðnaðurinn á Íslandi hafi vaxið ört síðustu ár vegna ótvíræðra kosta sem fylgja staðsetningu gagnavera hér á landi og íslensk gagnver séu að verða sífellt eftirsóttari á alþjóðavísu.
Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center, og Dave Tropeano, Program Director hjá IBM Cloud Satellite, hófu málþingið og var umræðum stýrt af Lilju Björk Guðmundsdóttur, viðskiptastjóra á iðnaðar- og hugverkasviði SI. „Við erum stolt að geta nú boðið upp á IBM Cloud á Íslandi. Aðstæður hér eru sérstaklega hentugar fyrir örugga og sjálfbæra gagnaversþjónustu, þökk sé meðal annars endurnýjanlegum orkugjöfum og hagstæðs veðurfars. Borealis er nú í enn betri stöðu til að þjónusta innlenda og erlenda viðskiptavini með áreiðanlegum hætti,“ sagði Björn Brynjúlfsson meðal annars. Dave Trepeano ræddi samstarfið við Borealis, en IBM leitar stöðugt við að bera kennsl á samstarfsaðila sem vinna eftir sömu gildum fyrirtækið hefur sjálft sett sér. Þá treystir IBM að Borealis sé aðili með sömu áherslu á öryggi og sjálfbærni sem IBM og viðskiptavinahópur þeirra leggi áherslu á.
Alma Tryggjadóttir, sviðsstjóri áhætturáðgjafar hjá Deloitte og Gunnar Sveinn Magnússon, meðeigandi og yfirmaður sjálfbærni og loftslagsmála hjá Deloitte, ræddu áhættuþætti, tækifæri og áskoranir sem nauðsynlegt er að fyrirtæki hugi að þegar kemur að gagnahýsingu. Halldór Már Sæmundsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Borealis Data Center, leiddi pallborðsumræður um sjálfbæra gagnageymslu og möguleika íslenskra gagnavera í þeim efnum. Í pallborðinu sátu Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður deildar loftslags og grænna lausna hjá Landsvirkjun, Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis, Þorvarður Sveinsson, framkvæmdastjóri Farice og Dave Tropeano, Program Director hjá IBM Cloud Satellite. Seinna pallborð málstofunnar var leitt af Nönnu Elísu Jakobsdóttur, viðskiptastjóra á iðnaðar- og hugverkasviði SI, þar sem rætt var um mikilvægi þess að fyrirtæki fari eftir reglugerðum þegar kemur að hýsingu og geymslu gagna. Í pallborðinu sátu Kristján Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Responsible Compute, Camilla Kampmann, hugbúnaðarstjóri IBM, Elfur Logadóttir, framkvæmdastjóri ERA, og Svavar G. Svavarsson, öryggis- og persónuverndarstjóri Össurs.
Dave Tropeano, Program Director hjá IBM Cloud Satellite.
Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, Björn Brynjúlfsson, Þorvarður Sveinson, Dave Tropeano og Halldór Már Sæmundsson.
Lilju Björk Guðmundsdóttur, viðskiptastjóra á iðnaðar- og hugverkasviði SI.
Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI.