Fréttasafn18. jún. 2019 Almennar fréttir Framleiðsla

Íslensk húsgögn á Bessastöðum eru kaflaskil

Íslensk húsgögn prýða nú suðurstofu Bessastaða í fyrsta sinn og eru það kaflaskil. Samtök iðnaðarins skoruðu á forseta Íslands að prýða Bessastaði íslenskum húsgögnum og var þeirri áskorun tekið af áhuga og velvilja forsetans. Í framhaldinu var unnið að útfærslu málsins og ber útkoman íslenskri hönnun og framleiðslu gott vitni. Við val á húsgögnum í suðurstofu Bessastaða var haft í huga að blandað væri saman samtímahönnun og eldri hönnun til að sýna þá miklu fjölbreytni sem einkennir íslensk húsgögn. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni Til fyrirmyndar.

Sigurður segir að forsetinn sé sannarlega fyrirmynd annarra, sér í lagi opinberra aðila eins og ráðuneyta, stofnana og safna sem hljóti nú að vilja hampa íslenskri hönnun og framleiðslu enn frekar. Hið opinbera eyði 40 krónum af hverjum 100 krónum sem eytt sé í hagkerfinu og með vali sínu hafi hið opinbera því mikil áhrif.

Þá segir hann að tilkoma íslensku húsgagnanna á Bessastöðum sé angi af stærra máli sem snúi að ímynd Íslands og menningaráhrifum. Falleg hönnun og vönduð framleiðsla geti svo sannarlega eflt ímynd Íslands og aukið þannig eftirspurn á því sem héðan kemur. Með jákvæðri ímynd getum við því náð forskoti í samkeppni við aðrar þjóðir og skapað aukin verðmæti. Sigurður segir að það sé því til mikils að vinna með því að hvetja til frekari dáða á sviði hönnunar og vandaðrar framleiðslu og að sama skapi að hvetja til eftirspurnar eftir slíkum vörum. Það styrki ímynd landsins og efnahag, sé jákvætt fyrir umhverfi og styðji við sjálfsmynd okkar. 

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.