Fréttasafn25. maí 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Íslenska lambið verði sendiherra

Íslensk náttúra, menning og saga er þekkt út í heimi. Vörumerkið Ísland hefur verið ræktað með frábærum og eftirtektarverðum árangri. Við getum þó gert betur. Íslenska lambið er á margan hátt táknmynd þeirrar ímyndar sem helst er tengd landinu, náttúran, hreinleiki, menning og gæði. Með því að gera íslenska lambið að sendiherra landsins verða til bein verðmæti auk þess sem vörumerkið Ísland styrkist með tilheyrandi verðmætasköpun annars staðar í hagkerfinu. Þetta kom meðal annars fram í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, á fundi sem fram fór í gærmorgun á Icelandair Hótel Reykjavík Natura en fundurinn bar yfirskriftina Hvað borða erlendir ferðamenn? 

Sigurður sagði að sendiherrar sem byggja á menningaráhrifum ýti undir jákvæða ímynd og að framleiðsla sem einkennist af íslenskum gæðum væri slíkur „sendiherra“. Áhugi erlendra ferðamanna á íslenska lambinu sýni að með frekari markaðssetningu verði íslenska lambið slíkur sendiherra

Aðrir þættir en matvæli hafa meiri áhrif á ímynd Íslands

Sigurður vitnað til greiningar sem gerð var á vegum Future Brand árið 2014 sem mældi meðal annars vörumerkið Ísland þar sem kemur fram að ímynd Íslands er samofin náttúru landsins og þau hugtök sem helst eru tengd Íslandi varða náttúru landsins. Hann sagði að mörg atriði hafi verið mæld og matvæli þykja ein af sérstöðu Íslands en hins vegar mælist matvæli ekki hátt þegar kemur að hugrenningatengslum við landið. Hann sagði þetta sýna að matvæli skapi landinu sérstöðu en aðrir þættir hafi meiri áhrif á ímynd landsins.

Sterkt orðspor þjóðar skapar verðmæt störf

Í erindi sínu kom Sigurður að orðspori þjóða sem hefur mikil áhrif á efnahag þeirra. Jákvætt orðspor getur aukið áhuga ferðafólks á að heimsækja land, ýtt undir eftirspurn eftir vörum, þekkingu og þjónustu, hvatt til áhuga hæfileikafólks á  búsetu og starfa og eflt áhuga erlendra fyrirtækja á að fjárfesta. Sterkt orðspor skapar verðmæt störf, ekki síst ef mikil fagþekking í framleiðsluiðnaði er líka til staðar. Við þær aðstæður verður víxlverkun í efnahagskerfinu, sem eykur verðmætasköpun og hagsæld enn frekar. Hann sagði að í sumum löndum njóti framleiðendur góðs af heimalandinu í verðlagningu og tók sem dæmi svissnesk úr sem eru dýrari en önnur og þýska bíla sem eru dýrari en sambærilegir frá öðrum löndum. Gott orðspor landa auki þannig verðmæti vara sem frá landinu koma. 

Náttúran, íþróttafólk og listamenn eru sendiherrar

Sigurður sagði að þrátt fyrir smæðina væri vörumerkið Ísland nokkuð þekkt víða erlendis og að íslenskt markaðsfólk hafi staðið sig vel en náttúra landsins hafi líka stutt við markaðsstarfið með því að minna reglulega á sig, íslenskt íþróttafólk hafi fangað athygli heimsins og listamenn frá Íslandi hafi náð ótrúlegum árangri. Þetta séu „sendiherrar“ Íslands sem beri hróður landsins víða um heim. Hann sagði að erlendar vörumerkjarannsóknir bendi t.d. til þess að Björk sé eitt mikilvægasta vörumerki Íslands, tákngervingur um dulúðina og töfrana sem mótað hafi þjóðina í þúsund ár.

Val okkar hefur áhrif

Sigurður sagði að íslensk framleiðsla skapi mikil verðmæti og fjölmörg störf um land allt og að val okkar hafi áhrif. Í lok erindisins hvatti hann til þess að við framleiðum íslensk gæði og kaupum sjálf íslensk gæði því þannig sköpum við verðmæti. 

Hér er hægt að nálgast glærur Sigurðar af fundinum.

Hér fyrir neðan eru myndir frá fundinum á Icelandair Hótel Reykjavík Natura.

Fundur3_1528108858023

Fundur2_1528108874344

Fundur5Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, flutti erindi með yfirskriftinni Hvers virði er að erlendir ferðamenn borði íslenskan mat?

Fundur4_1528108919676Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri markaðsstofunnar Icelandic Lamb, kynnti niðurstöður kannana Gallup og Maskínu um hvað erlendir ferðamenn borða.

Fundur6

Fundur7Brynja Laxdal, framkvæmdastjóri Matarauðs Íslands, talaði um matarauðinn okkar og matarferðaþjónustu.

Fundur9Fundarstjóri var Sara Lind Þrúðardóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Trademark Holding.