Fréttasafn29. jan. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök leikjaframleiðenda

Íslenskur tölvuleikjaiðnaður í sókn

Starfsfólki í tölvuleikjaiðnaðinum hér á landi fjölgaði um 35 árið 2020 og Tækniþróunarsjóður hefur aldrei fyrr veitt hærri upphæð til iðnaðarins en á síðasta ári eða 190 milljónum. „Það er virkilega gaman að sjá þessa þróun á því herrans ári 2020 með öllum þeim flækjum sem það bauð samfélögum upp á,“ segir Vignir Örn Guðmundsson, formaður Samtaka íslenskra leikjaframleiðenda - IGI, í samtali við Birnu Dröfn Jónasdóttur, blaðamann, í Fréttablaðinu. „Að sama skapi er fjárfesting í iðnaðinum að aukast töluvert milli ára en sex íslensk sprotafyrirtæki í leikjaiðnaðinum fengu nýja fagfjárfestingu á árinu frá bæði innlendum og alþjóðlegum fjárfestum.“ Þá er haft eftir Vigni í Fréttablaðinu að ársreikningar bendi til þess að vænta megi töluverðrar aukningar á tekjum milli ára.

Kreppuþolinn iðnaður

„Tölvuleikjaiðnaðurinn er kreppuþolinn iðnaður og í þeim aðstæðum sem skapast hafa í COVID, mikilli einangrun og lokun landamæra til dæmis, þá sést hversu burðugur iðnaðurinn er til að halda sinni þjónustu og kaupum og sölu á sinni vöru áfram og í rauninni í meira mæli.“ Vignir segir að í kreppunni árið 2008 hafi hagtölur tölvuleikjaiðnaðarins einnig farið upp. „Þeim sem unnu í iðnaðinum fjölgaði og tekjurnar urðu meiri.“

Viðhorfsbreyting í garð tölvuleikja

Þá segir Vignir í Fréttablaðinu að í kórónaveirufaraldrinum hafi vel mátt greina viðhorfsbreytingar í garð tölvuleikja, vel hafi komið í ljós hversu mikil áhrif tölvuleikir geti haft á félagsleg tengsl. „Augljóslega hefur sú einangrun sem fólk upplifði í kjölfar faraldursins haft áhrif á þessa vitundarvakningu um gildi og virði tölvuleikja í samhengi við heilbrigði, einmanaleika og tengsl. Fyrir nokkrum árum var mikil orðræða um tölvuleikjafíkn en nú er yfirgnæfandi orðræða um það hvernig tölvuleikir geti tengt fólk saman og það er bara svo hjartanlega rétt.“ Hann tekur dæmi af tölvuleiknum Eve Online: „Það er leikur sem hefur tengt fólk saman í um 20 ár og þegar ástandið er eins og það er búið að vera hefur leikurinn hreinlega bjargað mannslífum. Hann hefur styrkt fólk sem er einangrað og á erfitt með að halda félagslegum tengslum og það er ómetanlegt.“ 

Tölvuleikjaiðnaður er stærsti afþreyingariðnaðurinn

Í Fréttablaðinu segir að tölvuleikjaiðnaðurinn sé stærsti afþreyingariðnaður í heimi og segir Vignir að nú sé tækifærið fyrir stjórnvöld, menntastofnanir og þá sem hafa áhuga á því að starfa í iðnaðinum að sjá tækifærin sem í honum felist. „Árlegur vöxtur iðnaðarins á heimsvísu er 20-30 prósent en við erum ekki að ná að halda í þann vöxt hér sem þýðir að önnur hagkerfi og samfélög öðlast þar stærri bita af kökunni. Svo nú er tíminn til að stíga næsta stóra skref.“

Fréttablaðið, 29. janúar 2021.