Fréttasafn10. maí 2019 Almennar fréttir Framleiðsla

Jim Womack á ráðstefnu um straumlínustjórnun

Jim Womack sem er upphafsmaður straumlínustjórnunar (lean) og höfundur fjölmargra bóka verður meðal fyrirlesara á ráðstefnu sem Manino stendur fyrir í samstarfi við Samtök iðnaðarins um leiðir fyrir íslensk fyrirtæki til að bæta samkeppnishæfni sína. Ráðstefnan fer fram þriðjudaginn 21. maí kl. 12.30-17.00 í Hörpu. Hér eru nánari upplýsingar um ráðstefnuna sem ber yfirskriftina Umbylting í iðnaði - hvernig skapa fyrirtæki samkeppnisforskot á tímum óvissu og breytinga? 

Forsprakki og höfundur fjölda bóka um straumlínustjórnun

Jim var ásamt öðrum í rannsóknarteymi MIT sem rannsakaði aðferðir bílaframleiðandans Toyota á árunum 1975-1992. Útkoman úr þeirri vinnu var bókin „The Machine that Changed the World“ sem kom út árið 1990 og þar kemur orðið „lean“ fyrst fram sem heiti yfir þær aðferðir sem Toyota var að nota.

Hann stofnaði árið 1997 Lean Enterprise Institute (LEI) og var framkvæmdastjóri þeirra samtaka frá stofnun til 2010. Í dag eru samskonar samtök í 31 landi þar á meðal Íslandi, en Icelandic Lean Institute var stofnað 2018. Jim er einnig stofnandi Lean Global Network (LGN) sem eru samtök allra lean-samtakanna.

Jim hefur skrifað margar bækur og greinar um lean-aðferðirnar og er „Lean Thinking“ sem kom út 1996 sú þekktasta. Aðrar þekktar bækur sem hann hefur skrifað eru Lean Solutions (2005), Seeing the Whole Value Stream (2011) og Gemba Walks (2010).

Hann hefur ferðast um allan heim síðustu áratugi og haldið ógrynni fyrirlestra um lean og hvernig fyrirtæki og stofnanir eru að tileinka sér þessa aðferðafræði. Hann er einnig mjög aktívur sem lean-lærimeistari og hjálpar fyrirtækjum og stofnunum um allan heim með þeirra lean-vegferð.

Lean-Thinking-002-Lean-Solutions-002-Gemba-walks-002-Seeing-the-whole-value-stream-002-