Fréttasafn



11. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Samtök menntatæknifyrirtækja

Kaup á nútímavæddu námsefni er fjárfesting í framtíðinni

Styrkjum kennara með verkfærum sem efla kennsluaðferðir og styðja betur við nám nemenda. Kaup á fjölbreyttu nútímavæddu námsefni er ekki kostnaður; það er fjárfesting í framtíðinni. Notkun á fjölbreyttu gæða námsefni stuðlar að umhverfi þar sem kennarar ná betur og markvissar til nemenda sinna og nemendur þrífast, sem gerir þeim kleift að byggja upp nauðsynlega færni og hæfni til framtíðar. Þetta segir Íris E. Gísladóttir, stofnandi Evolytes og formaður Samtaka menntatæknifyrirtækja, í grein á Vísi með yfirskriftinni Blásum nýju lífi í ís­lenskt mennta­kerfi með gæða náms­efni.

Hún segir að skólasamfélagið hafi lengi kallað eftir betri og fjölbreyttari námsgögnum. Ákall sem endurómi nú líka frá foreldrum barna sem glími við áskoranir er komi að því að styðja börnin sín og fá þau til að hafa áhuga á að læra. Ákall sem eigi svo sannarlega rétt á sér enda sé vandað námsefni grunnur að árangursríku námi. Íris segir að það sé vilji til góðra verka og umbóta í íslensku menntakerfi. Þar starfi frábærir kennarar og metnaðarfullt starfsfólk sem vinni gott starf á hverjum einasta degi. „Verkefnin eru ærin en við þurfum í sameiningu að ryðja burt hindrunum og tryggja skólasamfélaginu skilvirk og árangursmiðuð tól. Við bjóðum ekki bændastéttinni okkar upp á að sjá um slátt með orfi og ljá og ættum því ekki heldur að biðja kennara okkar að snúa við námsárangri barna okkar með að mestu leyti gamlar bækur að vopni.“

Íris segir í greininni að markviss nýting á nútímavæddu námsefni auðveldi líka gagnaöflun og mat á árangri innan skólakerfisins sem skapi tækifæri á að taka markvissar ákvarðanir út frá haldbærum og rannsakanlegum gögnum. Þannig megi með auðveldari hætti taka gagnadrifnar ákvarðanir um breytingar sem nauðsynlegar séu til árangurs og nýta til framþróunar. Nemendum, kennurum og samfélagsins alls til hagsbóta. Íris segir að niðurstöður PISA séu ákall til aðgerða. Þær undirstriki brýna þörf fyrir heildstæða stefnumótun sem setji þróun, aðgengi og nýtingu gæða námsefnis í forgang. „Með því að hlúa að öflugu vistkerfi fyrir skólana okkar getum við blásið nýju lífi í menntakerfið og gert íslenskum nemendur kleift að standa stolt, í fremstu röð.“

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 9. desember 2023.