Fréttasafn25. jún. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Kaup RÚV á íslensku efni verði rannsakað og leiðrétt

„Þetta er grafalvarlegt mál. Ef þetta er staðan þá tel ég eðlilegt að þetta verði rannsakað og leiðrétt. Það er engan veginn í lagi að brjóta á rétti sjálfstæðra framleiðenda og taka af þeim fjármagn sem ætti að fara í íslenskt leikið efni og heimildarmyndir,“ segir Kristinn Þórðarson, formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, í Fréttablaðinu í dag en blaðið hefur greint frá því að það vanti rúmlega 195 milljónir króna upp á að Ríkisútvarpið ohf. uppfylli kröfur þjónustusamnings við mennta- og menningarmálaráðuneytið um kaup á efni frá sjálfstæðum framleiðendum.

Í fréttinni kemur fram að RÚV notast við aðra skilgreiningu á hugtakinu en finna megi í fjölmiðlalögum og skilgreini þannig verktakagreiðslur til einstaklinga sem kaup af sjálfstæðum framleiðendum. Engin svör hafi borist frá RÚV um forsendur skilgreiningarinnar.

Grafalvarlegt ef RÚV er búið að eyða peningunum í annað

Í fréttinni segir Kristinn skilgreiningu RÚV vera einkennilega og skilur ekki hvaðan hún kemur. „Tvö hundruð milljónir eru heilmiklir peningar. Það eru auðveldlega tvær sjónvarpsseríur og kaup á nokkrum bíómyndum. Það er bara á þessu eina ári, það þyrfti að skoða árin á undan líka. Það munar mjög miklu að bíða með verkefni í eitt eða tvö ár vegna þess að RÚV segist ekki eiga peninga. Ef það er búið að eyða þeim í annað, þá er það grafalvarlegt.“ Þá kemur fram í fréttinni að Kristinn telji það ekki breyta miklu ef það komi í ljós að RÚV sé heimilt lagalega séð að notast við eigin skilgreiningu. „Þá er verið að teygja sig langt inn á gráa svæðið og ekki í anda þess sem lagt var upp með í þjónustusamningnum árið 2016.“ Þá kemur fram að hann bindi vonir við að nýr þjónustusamningur taki á þessu. „Ég geri ráð fyrir að ráðherra og aðrir telji að RÚV fari eftir sömu skilgreiningu, sem virðist ekki vera gert.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 25. júní 2020.