Fréttasafn6. feb. 2019 Almennar fréttir

Kjöraðstæður til að fara í innviðauppbyggingu

Viðsnúningur er að verða í efnahagsmálum þjóðarbúsins um þessar mundir. Eftir hraðan hagvöxt síðustu ára hægir nú verulega á. Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans kemur fram að hagvöxturinn í ár verði einungis 1,8% sem er 0,9 prósentustigum minni hagvöxtur en bankinn spáði í síðustu hagvaxtarspá sinni sem birt var í byrjun nóvember á sl. ári. Reiknar bankinn nú með því að atvinnuleysi aukist í ár og að það dragi úr atvinnuþátttöku.

Hagvoxtur-og-atvinnuleysi

Rétt ákvörðun að auka við samgönguframkvæmdir

Umræður voru á Alþingi í gær um samgönguáætlun. Í áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um áætlunina segir að nú dragi úr hagvexti og þar með losni um framleiðsluþætti í hagkerfinu. Þar segir að þess muni strax farið að gæta, t.d. hjá verkfræðistofum og verktökum. Í nefndarálitinu segir að nú séu að skapast kjöraðstæður til að fara í innviðauppbyggingu. Með henni verður byggt undir framfarir í samfélags- og efnahagsmálum í landinu.

Réttilega er bent á í álitinu að uppsafnaður vandi er mikill og brýnt að framkvæmdahraði yrði meiri en áætlað er í samgönguáætlun. Bent hefur verið á að Ísland er strjálbýlt og vegakerfið umfangsmikið miðað við fólksfjölda, og uppbygging þess hefur alla tíð verið á eftir nágrannalöndunum. Fjárfestingarþörfin í heild er á milli 350–400 milljarðar kr.

Aukin fjárfesting heldur uppi hagvextinum

Í ofangreindri spá Seðlabankans er reiknað með 6,7% vexti í fjárfestingu í ár. Það er nokkuð meiri vöxtur en í fyrra en þá var vöxturinn 4,5%. Má segja að vöxtur í fjárfestingum haldi uppi hagvextinum í ár að stórum hluta. Það sem skýrir vöxt fjárfestinga eru íbúðafjárfestingar (+16%) og vöxtur í fjárfestingu hins opinbera (+7%). Atvinnuvegafjárfesting sem dróst saman í fyrra (-3,5%) mun ekki aukast nema um 4% í ár.

Tónninn gefinn á Útboðsþingi SI

Á síðasta Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í lok janúar sl. komu fram upplýsingar sem benda til mikillar aukningar í opinberri fjárfestingu. Á þinginu nú í janúar voru kynnt áform um 128 milljarða króna framkvæmdir í ár, sem er tæplega 50% aukning miðað við meðaltal áforma síðustu þriggja ára.

Í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans sem birt var í morgun eru niðurstöður Útboðsþings Samtaka iðnaðarins gerðar að umtalsefni. Þar segir að í síðustu spá Hagfræðideildarinnar hafi verið gert ráð fyrir að opinber fjárfesting ykist um 10% bæði árin 2019 og 2020 og að hún færi yfir 4% af vergri landsframleiðslu (VLF) á árinu 2020, en hún var að meðaltali 4,5% á árunum 1998-2008. Þar segir að ekki sé ólíklegt að spá deildarinnar breytist við endurskoðun í maí 2019.

Hið opinbera verður að nýta svigrúmið

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, benti á fyrir skömmu að hið opinbera verði að nýta það svigrúm sem skapist þegar fjárfesting atvinnuveganna dragist saman og hægist á gangi hagkerfisins og hafa beri í huga að mikil uppsöfnuð þörf sé fyrir fjárfestingu í innviðum eftir fjársvelti síðustu tíu ár. Hann segir að spáin sé heldur varfærin og ætla megi að fjárfestingin á árunum 2020-2022 verði jafnvel umfram þá áætlun sem kom fram á þinginu.