Fréttasafn20. nóv. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Landssamband bakarameistara

Kolólöglegt að selja Sörur á netinu

„Lögum samkvæmt er þetta náttúrulega bara kolólöglegt,“ segir Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri hjá Samtökum iðnaðarins og tengiliður við Landssamtök bakarameistara, í kvöldfréttum RÚV þar sem fjallað er um sölu á netinu á Sörum sem eru jólabakkelsi fyrir jólin.

„Því miður. Þú mátt baka heima hjá þér í góðgerðaskyni eða í fjáröflunarskyni, þá er það heimilt. Það er reglugerð fyrir því og það eru leikreglurnar í okkar samfélagi. En um leið og þú ert farinn að stunda bakstur eða annað slíkt í hagnaðarskyni þá situr þú við sama borð og aðrir og þar af leiðandi við sama borð og bakarinn,“ segir Gunnar í fréttinni. 

Þá kemur fram að fólk þurfi að hafa tilskilin réttindi til að selja handiðnað, greiða skatta og önnur gjöld og heilbrigðisyfirvöld þurfi að hafa eftirlit með framleiðslunni. Gunnar segir í fréttinni að stjórnvöld setji þessar reglur og því sé ekki rétt að gagnrýna Landssamband bakarameistara. „Það er mjög leiðinlegt að það sé verið að pínu hengja bakara fyrir smið í þessu máli því að Landssambandið er ekkert í einhverju svartstakkameðferð í því að fara að draga fram hina og þessa sem eru að baka sörur,“ segir Gunnar.

RÚV, 19. nóvember 2020.