LABAK fagnar 190 ára sögu brauðgerðar á Íslandi
Landssamband bakarameistara, LABAK, fagnar því um þessar mundir að 190 ár eru síðan fyrsta brauðgerð landsins opnaði, nánar tiltekið 25. september 1834 og er það því merkur dagur í sögu bakaraiðnaðar á Íslandi.
Á vef LABAK segir að hinn danski Peter Christian Knudtzon, kaupmaður og þingmaður, hafi reist húsnæði í Torfunni og var bakaraofn að finna í einu þeirra. Hann hafi fengið þýskan bakarameistara að nafni Tönnies Daniel Bernhöft til starfa við brauðgerðina. Sá átti eftir að taka við rekstrinum og breytti nafni brauðgerðarinnar í Bernhöftsbakarí. Árið 1868 hafi síðan verið opnuð brauðgerð á Akureyri og voru bakaríin þá orðin tvö en þeim átti eftir að fjölga.
Í Morgunblaðinu og á mbl.is er fjallað um þessi tímamót og rætt við Sigurð Má Guðjónsson, formann LABAK og bakarameistari Bernhöftsbakarís, þar sem hann segir meðal annars að bakaraiðn sé ákaflega lifandi og skapandi grein. „Það að hafa fagþekkingu og kunna að nýta hráefni það sem náttúran gefur af sér til að framleiða matvöru er stórkostlegt. Það er líka heiður að fá að tilheyra og starfa í elstu iðngrein heims enda bakstur verið stundaður í þúsundir ára.“
Þá kemur fram í Morgunblaðinu að bakaraiðn njóti mikilla vinsælda á Íslandi í dag og innan Landssambands bakarameistara ríki ánægja með þróunina í náminu. „Síðustu árin hefur verið stöðug aukning af ungu fólki sem vill leggja bakaraiðnina fyrir sig. Því er ekki fyrir að fara í löndunum í kringum okkur og klóra sér margir erlendir starfsbræður í hausnum yfir því hvað við séum að gera rétt. Það eru líka þó nokkrir Íslendingar í Danmörku að nema kökugerð um þessar mundir, sem er ákaflega ánægjulegt. Sveinsprófið í bakaraiðn sem við héldum núna í vor var tvöfalt fjölmennara en prófið í fyrra,“ segir Sigurður meðal annars í Morgunblaðinu í dag.
Morgunblaðið, 26. september 2024.
mbl.is, 25. september 2024.
mbl.is, 27. september 2024.
Morgunblaðið, 25. september 2024.