Fréttasafn



29. okt. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Lánamarkaðurinn kjörbúð með tómum hillum

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir vísbendingar um að vaxtalækkanir Seðlabankans í ár hafi ekki skilað sér sem skyldi vegna takmarkaðrar útlánagetu bankanna. Seðlabankinn greinir næst frá vaxtaákvörðun 6. nóvember, bankinn hefur lækkað meginvexti í fjórum lotum í röð en fréttir hafa verið að undanförnu um að skortur sé á lánsfé í hagkerfinu. „Seðlabankinn lækkar vexti til að örva eftirspurn í hagkerfinu og örva fjárfestingu. Ef það á hins vegar að raungerast þarf að vera framboð á fjármagni.“ Þegar blaðamaður spyr Sigurð um leiðir til úrbóta bendir hann á að Seðlabankinn hafi ákveðið að frá og með 1. apríl 2020 muni bankinn fækka þeim aðilum sem átt geta viðskiptareikning í bankanum. Það sé liður í að koma fjármagni og innlánum í bankana og það geti aftur orðið til þess að örva útlán bankanna. „Ef þetta er raunin má segja að lánamarkaðurinn sé kjörbúð þar sem vöruverðið er að lækka en allar hillurnar eru tómar.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 29. október 2019.