Fréttasafn



12. jún. 2020 Almennar fréttir

Landsmenn hvattir til að skipta við innlend fyrirtæki

Við erum að hvetja landsmenn alla hvort sem það er almenningur eða fyrirtæki til þess að skipta við innlend fyrirtæki. Hvort sem það er innlend verslun, innlend matvæli, húsgögn, lausnir, ferðast innanlands og svo framvegis til þess að huga að því hvað gerist þegar við tökum þá ákvörðun vegna þess að þar með erum við að verja störfin í landinu. Við erum að skapa verðmæti og koma hringrásinni af stað sem þarf svo sannarlega að gera núna á þessum krefjandi tímum. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali í Speglinum á RÚV þar sem fjallað er um herferðir atvinnulífs og stjórnvalda til að hvetja landsmenn til að ferðast innanlands, eiga viðskipti innanlands og hvetja erlenda ferðamenn til að koma til landsins.

Sigurður segir í viðtalinu að hann hafi fulla trú á því að þessar herferðir muni bera árangur. „Ef við lítum ár og áratugi aftur í tímann þá hafa svona markaðsherferðir verið haldnar með regluleg millibili til þess að minna fólk á hvað fer af stað, þessi keðjuverkun sem fer af stað, þegar við skiptum við hvert annað og við innlend fyrirtæki. Í fyrri tilvikum hefur árangur verið mældur og hann hefur verið jákvæður. Við teljum fulla ástæðu til þess að vekja landsmenn til umhugsunar um þessi mál en svo auðvitað tekur hver og einn sínar upplýstu ákvarðanir sem henta hverjum og einum.“

Fyrst og fremst verið að vekja athygli 

Þegar Sigurður er spurður hvort í þessu felist einokunarstefna segir hann það svo sannarlega ekki vera þannig. „Þarna er fyrst og fremst um að ræða að vekja athygli á þeirri starfsemi sem er hér á landi í ólíkum greinum hvort sem það er verslunin og þjónustan sem er í boði hér, ferðaþjónustan og möguleikarnir sem eru á að ferðast innanlands, sú framleiðsla sem fer fram hér og svo framvegis. Þannig að hér er fyrst og fremst verið að vekja athygli á þessu. Vekja athygli á því hvað gerist þegar við skiptum hvert við annað en eins og segi þá taka bara allir þær ákvarðanir fyrir sig. Við erum ekki að mæla fyrir einhverri einangrunarstefnu enda vitum við öll að við Íslendingar höfum hagnast á alþjóðlegri samvinnu og alþjóðlegum viðskiptum.“

Nýr blær en byggt á grunni Íslenskt gjörið svo vel

Sigurður segir að þetta verkefni sem um ræðir verði með nýjum blæ og öðrum en hins vegar verði byggt að einhverju leyti á þeim grunni sem var reistur í verkefninu Íslenskt gjörið svo vel sem fór af stað 2018. „Það var samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Bændasamtakanna og Samtaka atvinnulífsins. Það eru margir af þeim aðilum sem koma að þessu nýja verkefni sem stóðu að Íslenskt gjörið svo vel en verkefnið núna er víðtækara. Það eru fleiri sem koma að því, fleiri samtök í atvinnulífinu en líka stjórnvöld. Þannig að það er verið að gera þetta á öðrum grunni en áður þó að við gerum ráð fyrir því að ákveðnir hlutar af fyrri herferð verði nýttir. Það eru til dæmis margir framleiðendur sem hafa notað myndmerki Íslenskt gjörið svo vel til þess að merkja umbúðir og sínar vörur. Við viljum gera þeim kleift að halda því áfram.“ 

Þá kemur fram í viðtalinu við Sigurð að núna nýlega hafi Ríkiskaup auglýst útboð á þessu verkefni. „Við höfum fundið fyrir miklum áhuga hjá auglýsingastofum á þessu verkefni enda er það stórt á íslenskan mælikvarða en fjármagnið sem úr er að spila er 160 milljónir króna.“ 

Á vef RÚV er hægt að hlusta á umfjöllun Spegilsins, 11. júní 2020.