Langmest fjölgun í nýjum störfum hjá hinu opinbera
Samdráttur í efnahagslífinu er farinn að sjást á þeim hluta vinnumarkaðarins sem snýr að einkageiranum. Vísbendingar eru þar um að það dragi talsvert úr fjölgun starfa og fréttir eru að berast af uppsögnum. Í gögnum um fjölda starfandi sem Hagstofa Íslands birti í gær kemur fram að starfandi einstaklingum í þeim hluta hagkerfisins fjölgaði um 1,5% í júlí frá sama mánuði í fyrra. Mældist vöxturinn 5,4% á sama tíma í fyrra.
Öðru máli gegnir um hið opinbera. Vöxtur þess heldur áfram að því er virðist óháð efnahagsástandinu. Nemur fjölgun starfandi hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum 4,0% yfir síðustu tólf mánuði samkvæmt gögnum Hagstofunnar og er það um 54% af heildarfjölgun starfandi á þeim tíma. Hlutdeild hins opinbera af heildarfjölda starfandi er vaxandi og nam á þennan mælikvarða 31% í júlí.
Ef horft er til annars mælikvarða á umfangi hins opinbera sem nær til þess þáttar hins opinbera sem ekki er flokkað sem opinber fyrirtæki og stofnanir en er engu að síður fjármagnað að hálfu hins opinbera kemur í ljós að fjölgun starfandi hjá þeim hluta hagkerfisins mældist í júlí 4,3% frá sama tíma fyrir ári. Þetta er ríflega 61% af heildarfjölgun starfandi í hagkerfinu.
Það er því sama hvaða mælikvarða er horft á, niðurstaðan er sú sama. Á undanförnum tólf mánuðum hefur orðið langsamlega mesta fjölgunin í nýjum störfum hjá þeim sem vinna hjá hinu opinbera. Hið opinbera hefur með þessum hætti viðhaldið þenslu á vinnumarkaði sem undanfarið hefur verið sögð hluti þess verðbólguvanda sem hrjáð hefur landsmenn og kallað hefur á háa stýrivexti. Snýr það bæði að fjölgun starfsmanna og launaþróun þar sem hið opinbera hefur á sumum sviðum verið leiðandi undanfarið.
Viðskiptablaðið, 6. september 2024.