Fréttasafn



2. sep. 2019 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Lausnir í loftslagsmálum munu koma frá atvinnulífinu

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, segist í grein sinni Atvinnulífið sýnir frumkvæði í loftslagsmálum sem birtist í helgarútgáfu Morgunblaðsins fagna auknu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir en að hún hafi saknað þess að á sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandanna á Íslandi skyldi ekki mikilvægi atvinnulífsins vera dregið betur fram og þær lausnir sem þar er að finna. Hún segir það miður að í allri umræðunni í síðustu viku hafi lykilforsendan fyrir árangri í þessum málaflokki ekki verið rædd en lausnirnar og aðgerðirnar sem kallað er eftir munu koma frá iðnaði og atvinnulífi. 

Samvinna ólíkra aðila er lykill að árangri í loftslagsmálum

Guðrún segir í greininni að atvinnulífið hafi bæði metnað og vilja til að gera enn betur og meira í loftslagsmálum en þegar hefur verið gert. „Samvinna ólíkra aðila er lykill að árangri í loftslagsmálum og þess vegna hafði atvinnulífið frumkvæði að samstarfi við stjórnvöld í þeim málum. Í atvinnulífi liggja lausnirnar og því er vert að hvetja íslensk fyrirtæki til að taka þennan málaflokk enn fastari tökum. Íslenskur iðnaður hefur nú þegar stigið stór skref í átt að sjálfbærni og er ég sannfærð um að íslenskt hugvit og lausnir munu geta orðið leiðandi á heimsvísu og hjálpað öðrum þjóðum að draga úr losun enda er loftslagsvandinn hnattrænn vandi.“

Í niðurlagi greinarinnar segir Guðrún að saman verðum við að leita lausna sem miða að því að gera jörðina að enn betri stað fyrir komandi kynslóðir.

Hér er hægt að lesa grein Guðrúnar í heild sinni.