Fréttasafn3. maí 2019 Almennar fréttir Lögfræðileg málefni

Leggjast gegn frumvarpi um breytingu á húsaleigulögum

Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök iðnaðarins leggjast alfarið gegn því að frumvarp um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, verði samþykkt. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna þriggja við 795. mál sem send hefur verið velferðarnefnd. Í umsögninni segir að með þeirri breytingu sem lögð er til með frumvarpinu verði eðlisbreyting á réttarsambandi starfsmanns og atvinnurekanda sem bjóði starfsmanninum húsnæði til leigu sem hluta af ráðningarkjörum.

Neikvæð áhrif frumvarpsins

Í umsögninni kemur fram að áhrif frumvarpsins verði neikvæð. Í fyrsta lagi skerðist möguleikar atvinnurekenda til að ráða starfsfólk ef frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Í öðru lagi munu hagsmunir mögulegra starfsmanna skerðast þar sem þeir verði annað hvort af atvinnutækifærum eða þurfi að greiða hærri leigu en ella. Í þriðja lagi verði atvinnurekendur af tekjum ef þeir haldi að sér höndum við ráðningar. Í fjórða lagi sé líklegt að hækkun leiguverðs húsnæðis í umráðum atvinnurekenda hafi áhrif til hækkunar á almennum leigumarkaði. Þar segir að öll framangreind áhrif muni skapa umrót í umhverfi ráðningarsamninga, einkum í tilviki erlendra starfsmanna. Á heildina litið muni samþykkt frumvarpsins valda auknum kostnaði sem geti orðið verulegur. Þá segir að gera megi ráð fyrir því að á ýmsum stöðum á landinu muni samþykkt frumvarpsins beinlínis koma í veg fyrir uppbyggingu atvinnurekstrar þar sem ákvæði þess leggi stein í götu atvinnurekenda sem óhjákvæmilega þurfi að hýsa starfsmenn í tengslum við rekstur starfsstöðvar. 

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.