Leiðbeiningar um rafmagn í forvarnarskyni
Samtök rafverktaka, Samtök iðnaðarins og Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa gefið út leiðbeiningar í forvarnarskyni fyrir almenning um það sem gott er að vita varðandi rafmagn og brunavarnir. Á aðventunni er algengt að fjöltengi séu dregin fram til að tengja öll jólaljósin sem við viljum hafa í kringum okkur. Mikilvægt er að ganga úr skugga um að fjöltengin hæfi aðstæðunum þar sem þau eru notuð og að ekki sé fjöltengi tengt við annað fjöltengi. Þá er einnig mikilvægt að tengja ekki orkufrek tæki við fjöltengi eða grannar framlengingarsnúrur. Í leiðbeiningunum er farið yfir atriði sem einfalt er fyrir almenning að framkvæma til að draga úr líkum á slysum og eldsvoðum af völdum rafmagns.
Í leiðbeiningunum eru meðal annars birt tíu góð ráð um rafmagn:
1. Sýnið varúð við eldamennsku og munið að slökkva á eldavélinni strax eftir notkun.
2. Takið raftæki úr sambandi þegar þau eru ekki í notkun.
3. Látið skipta strax um skemmdan rafbúnað.
4. Hlaðið raftæki á óbrennanlegu undirlagi og ekki þegar allir eru sofandi eða fjarverandi.
5. Fargið gömlum rafbúnaði sem farinn er að láta á sjá.
6. Farið varlega í notkun fjöltengja og gætið þess að ofhlaða þau ekki.
7. Varist að staðsetja ljós eða annan rafbúnað sem hitnar of nálægt brennanlegu efni.
8. Gefið gaum að merkingum raftækja og notiðeins og til er ætlast.
9. Prófið bilunarstraumsrofann (lekastraumsrofann) nokkrum sinnum á ári með því að þrýsta á
prófhnappinn.
10. Gott er að eiga á vísum stað auka vartappa fyrir varrofann í rafmagnstöflunni.
Til að tryggja rafmagnsöryggi er hvatt til þess í leiðbeiningunum að taka rafmagnspróf á vef Samtaka rafverktaka til að meta stöðuna á rafkerfum heimila og fyrirtækja. Mikilvægt er að prófa bilunarstraumsrofa og skoða rafbúnað reglulega þar sem taka þarf strax úr umferð rafbúnað með sködduðum tengisnúrum eða klóm.
Ef rafbúnaður þarfnast lagfæringar er bent á að einungis löggiltum rafverktökum með löggildingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til rafvirkjunarstarfa og fyrirtækjum þeirra er heimilt að taka að sér vinnu við raflagnir.
Öryggiskröfur sem gerðar eru til raflagna á Íslandi eru í meginatriðum þær sömu og gerðar eru í löndum á meginlandi Evrópu. Í nýrri skýrslu EuropeOn sem eru samtök evrópskra rafverktaka kemur fram að þegar íkveikjur eru undanskildar þá er 47% eldsvoða í Evrópu af völdum rafmagns. Þá er vitað að víða eru eldri raflagnir og rafmagnstöflur sem uppfylla ekki nútíma öryggisstaðla sem getur haft hættulegar afleiðingar í för með sér.
Undanfarin ár hafa löggiltir rafverktakar og starfsmenn þeirra orðið varir við að rafmagnstöflur sem þeir eru að þjónusta beri merki um að þær séu að hitna umfram það sem æskilegt getur talist. Sérstakleg er þetta áberandi þar sem gamlar trétöflur með bræðivörum eru enn í notkun. Of mikill hiti í rafmagnstöflum dregur úr líftíma varbúnaðar og raflagna sem honum tengjast og getur ef illa fer valdið eldsvoða. Samtök rafverktaka hvetja almenning til að gefa rafmagnsöryggi gaum og kynna sér leiðbeiningarnar. Listi yfir löggilta rafverktaka í Samtökum rafverktaka er meðal annars að finna á vef sart www.sart.is og á vefnum www.meistarinn.is.
Hér er hægt að nálgast leiðbeiningarnar.