Fréttasafn4. mar. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök leikjaframleiðenda

Leikjaframleiðendur fögnuðu góðu ári á aðalfundi IGI

Aðalfundur Samtaka leikjaframleiðenda - IGI, sem fór fram á Hilton Nordica í vikunni var vel sóttur. Á fundinum var meðal annars rætt um framtíð leikjaiðnaðar. Þorgeir Frímann Óðinsson, framkvæmdastjóri Directive Games og formaður stjórnar IGI, fór yfir starfsárið sem einkenndist af jákvæðum sögum úr leikjaiðnaði, vexti leikjafyrirtækja á Íslandi og áframhaldandi eflingu nýsköpunarumhverfisins hér á landi sem er lykillinn að velgengni leikjaiðnaðar.

Mannauður hindrar vöxt í leikjaiðnaði

Á fundinum kom fram að félagsmenn IGI eru sammála um að mannauður sé helsta hindrunin í vegi áframhaldandi vaxtar í leikjaiðnaði en síðan í júní 2020 hefur starfsmönnum leikjafyrirtækja fjölgað um 35%. Engar vísbendingar eru um að lát verði á þessari fjölgun á næstunni.

Aldrei verið meira fjárfest í íslenskum leikjafyrirtækjum

Á fundinum kom fram að samkvæmt greiningu IGI var fjárfest í íslenskum leikjafyrirtækjum fyrir að minnsta kosti 35 milljónir Bandaríkjadala á síðasta ári en aldrei hefur verið meira fjárfest í íslenskum leikjafyrirtækjum ef frá er talið árið 2015 þegar fjárfest var fyrir 38 milljónir Bandaríkjadala. Þar hafði mest áhrif stór fjárfesting í CCP Games en í ár var um að ræða fleiri fjárfestingar í fjölbreyttari fyrirtækjum. Greiningin er enn í vinnslu þar sem enn á eftir að safna gögnum frá nokkrum fyrirtækjum í iðnaðinum.

Ný stjórn kosin 

Á fundinum var Þorgeir Frímann endurkjörinn formaður auk þess sem Halldór Snær Kristjánsson, Myrkur Games, og María Guðmundsdóttir, Parity, voru endurkjörin í stjórn sem meðstjórnendur. Eldar Ástþórsson frá CCP Games var kjörinn nýr inn í stjórn. Annað ár af tveimur sitja Diðrik Steinsson frá Porcelain Fortress, Ívar Kristjánsson frá 1939 Games og Hilmar Birgisson frá Mussila. Stefán Þór Björnsson, Solid Clouds, og Helga Bjarnadóttir, Mainframe, voru endurkjörin varamenn í stjórn.

Fundarstjóri var Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri IGI hjá Samtökum iðnaðarins.

DSC03799Þorgeir Frímann Óðinsson, framkvæmdastjóri Directive Games var endurkjörinn formaður IGI.

DSC03803Haukur Steinn Logason, fráfarandi stjórnarmaður IGI og framleiðandi hjá CCP, Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs SI og greinandi hjá CCP, ásamt Helgu Bjarnadóttur, framleiðslustjóra Mainframe, og Ingólfi Ævarssyni, markaðsstjóra 1939 Games.

DSC03809Snorri Siemsen, tæknistjóri Mussila, Ásdís Arna Gottskálksdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Parity, Eldar Ástþórsson, vörumerkjastjóri hjá CCP, Ingvar Haraldsson, markaðsfulltrúi Directive Games, Ásrún Ísleifsdóttir, samfélagstengill Directive Games, Guðmundur Kristjánsson, stofnandi 1939 Games, og Ingólfur Ævarsson, markaðsstjóri 1939 Games.

DSC03814Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs SI og greinandi hjá CCP, ásamt Ívari Kristjánssyni, framkvæmdastjóra 1939 Games.

DSC03816Haukur Steinn Logason, fráfarandi stjórnarmaður IGI og framleiðandi hjá CCP, og Þorgeir Frímann Óðinsson, framkvæmdastjóri Directive Games og formaður IGI.

DSC03818Vignir Örn Guðmundsson, fyrrverandi formaður IGI, ásamt Snorra frá Mussila og Hilmari Birgissyni, stjórnarmanni í IGI og framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Mussila.

DSC03820Ásdís Arna frá Parity og Halldór Snær Kristjánsson, stofnandi Myrkur Games.

DSC03822Helga Bjarnadóttir, framleiðslustjóri Mainframe, og Eldar Ástþórsson, vörumerkjastjóri hjá CCP.

DSC03825Ólöf Svala Magnúsdóttir, aðstoðarframleiðandi Arctic Theory, ásamt Ingvari og Ásrúnu frá Directive Games.