Fréttasafn



29. jún. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Leysa þarf framboðsvandann á íbúðamarkaði

Að einhverju marki koma nýjustu aðgerðir Seðlabankans einnig til með að hafa áhrif á framboðshliðina sem er slæmt við þessar aðstæður því það er framboðsvandinn á íbúðamarkaði sem þarf að leysa. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein í ViðskiptaMogganum. Hann segir að Seðlabankinn hafi brugðist við ófremdarástandi á íbúðamarkaði með vaxtahækkun og aðgerðum til að draga úr lánamöguleikum fyrstu kaupenda íbúða. Þetta séu aðgerðir sem fyrst og fremst hafi áhrif á eftirspurn markaðarins. Seðlabankastjóri hafi bent á að skortur á húsnæði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, sé vandamál og að hækkun á íbúðaverði sé ekki knúin áfram af lánabólu. 

Fjölgun íbúða hefur ekki haldið í við fjölgun íbúa

Ingólfur segir að mikill skortur hafi verið á íbúðum undanfarið. Framboð íbúða sé rétt um fjórðungur þess sem var fyrir ríflega tveimur árum og sölutími íbúða verið styttri en áður hafi mælst hér á landi. Líkt og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) bendi á í nýjustu skýrslu sinni um íslenskt efnahagslíf hafi fjölgun íbúða ekki haldið í við fjölgun íbúa í landinu undanfarin ár. Skorturinn hafi þrýst verði upp en húsnæðisverð hafi hækkað um 24% á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 12 mánuðum. Hann segir að verðhækkanirnar hafi einnig verið miklar á öðrum landsvæðum.

Lóðaskortur takmarkar íbúðauppbyggingu

Þá segir Ingólfur í greininni að framboð nýrra íbúða hafi verið takmarkað af framboði lóða. Niðurstöður könnunar sem Outcome framkvæmdi fyrir SI meðal stjórnenda stórra íslenskra fyrirtækja í mannvirkjagerð og byggingariðnaði sýni að 72% þeirra telji að skortur á lóðum sem tilbúnar séu til nýbygginga takmarki uppbyggingu íbúða. Svörin beri það með sér að lóðaskortur sé takmarkandi þáttur fyrir íbúðauppbyggingu. Að auki bætist við hækkanir á hrávörum, tafir á flutningum og skortur á vinnuafli sem allt geti tafið fyrir nauðsynlegri uppbyggingu.

Án aukins framboðs verður hagvöxturinn minni

Í niðurlagi greinarinnar segir Ingólfur að í ljósi þess að hér sé um framboðsvanda að ræða sé því til mikils að vinna að auka framboð nýrra íbúða. Vinnuaflsþörf hagvaxtar litið til næstu ára þurfi að mæta með auknu framboði íbúða, sem sé forsenda aukinnar verðmætasköpunar hér á landi. Án slíks framboðs verði hagvöxturinn mun minni og efnahagsleg staða heimilanna í landinu verri. Aukin íbúðauppbygging sé því forsenda hagvaxtar og bættra lífsskilyrða litið til næstu ára. Leysa þurfi framboðsvandann.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

ViðskiptaMogginn / mbl.is, 29. júní 2022.

VidskiptaMogginn-29-06-2022